Geir Haarde segir enga þörf á á gjaldmiðilsbreytingu nú. Veit hann ekki betur eða – það sem jafnvel er líklegra – telur hann sér skylt að tala svona til að valda ekki óróa? Geir er jú með varkárustu mönnum.
Horfum á staðreyndir málsins:
Stýrivextir eru 13,3 prósent og enginn veit hvernig á að fara að því að lækka þá vegna stórkostlegrar útgáfu á krónubréfum sem braskarar versla með. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur til þess að vextir verði hækkaðir ennþá meira.
Vextir á húsnæðislánum eru komnir í næstum 6 prósent – og þau eru líka verðtryggð.
Fyrirtæki og fólk tekur lán í öðrum gjaldmiðlum en krónunni til að þurfa ekki að beygja sig undir það ok að nota hana. Þessu fylgir mikil áhætta en tiltrúin á krónunni er svo lítil að menn eru til í að taka hana.
Stóru fyrirtækin farin að skrá hlutafé sitt í evrum.
Margir – sérstaklega hálaunamenn – eru farnir að fá laun greidd í evrum eða hluta þeirra.
Hlutabréfamarkaðurinn íslenski mun smátt og smátt færast yfir í annan gjaldmiðil en krónuna.
Íslenska krónan er aðgangshindrun inn á markaði hér, stendur í vegi fyrir erlendri fjárfestingu og samkeppni utan í frá.
Gengi gjaldmiðilsins er alltof hátt fyrir útflutningsatvinnugreinarnar og hefur verið lengi.
Hágengið kallar á aftur á móti mikinn, nær taumlausan, innflutning varnings, sem aftur framkallar óskaplegan viðskiptahalla.
Hin raunverulega króna er varla í notkun í lánaviðskiptum, nema þegar yfirdráttur og slíkt er annars vegar. Þá eru vextirnir taldir í tugum prósenta.
Í staðinn er notuð hin verðtryggða króna. Hún sveiflast með verðbólgunni. Hvert verðbólguskot er lántakendum afar dýrt. Þeir borga og borga en komast samt ekki nálægt því að byrja að greiða niður lán sín. Það sér ekki högg á vatni. Afleiðingin: Fólk eignast ekki neitt.
Núverandi gengisfyrirkomulag okkar – fljótandi mynt með Seðlabanka sem skal halda verðbólgu í skefjum með vaxtaakvörðunum – hefur hvergi verið reynt í samfélagi sem hefur svo smáan gjaldmiðil. Sveiflurnar geta verið mjög miklar. Og við vitum heldur ekki nema að einn daginn taki gjaldmiðillinn upp á því að hrynja – með nokkuð skelfilegum afleiðingum.
Tilraunir Seðlabankans til að halda verðbólgu í skefjum samkvæmt þessari stefnu hafa mistekist gjörsamlega. Verðbólgan skal ekki vera meiri en 2,5 prósent. Undanfarin ár hefur hún aldrei farið niður fyrir þá tölu. Það er óralangt frá því.