Í fyrradag birti ég bréf frá vini síðunnar í París, nú kemur bréf frá vini í Lundúnum. Fróðlegt er að lesa þetta saman við bloggfærslu dómsmálaráðherra frá því í vikunni. Það er auðvelt að vera sammála honum um að eigendur skemmtistaða þurfa að taka meiri ábyrgð en hins vegar virðist ráðherrann eitthvað efins um að raunveruleg þörf sé á aukinni löggæslu.
En hér er semsagt bréfið frá London:
„Vegna miðborgarmála vil ég deila með þér reynslu minni frá því sl. sunnudag.
Ég var staddur á klassískum útitónleikum í Newham borgarhlutanum í London. Þeir fóru fram í almenningsgarði og hófust um kl. 19 og þeim lauk fyrir kl. 22. Búist var við að gestir yrðu allt að 10 þúsund en þeir urðu um 7 þúsund. Inngangur í garðinn var vel skilgreindur og þá var svæði það sem gestir voru á vel afmarkað. Því var auðvelt að fylgjast með fólki og hafa “kontrol” á því fjölskyldufólki sem þarna var saman komið. Engu að síður mátu lögregluyfirvöld þörfina fyrir löggæslu slíka að innan svæðis og við inngang voru líklega nærri 80 – 100 lögreglumenn sem höfðu þægilega nærveru og voru augljósleg hluti hópsins. Nærvera þeirra skapaði ró og veitti öllum notalega öryggstilfinningu.
Mér skilst að um helgar í Reykjavík þegar saman koma um miðja nótt 6 – 14 þúsund ölvuð ungmenni sem þvælast um stræti, torg, skuggasund og þröngar götur í nálægð íbúðabyggða þá telji lögregluyfirvöld nægjanlegt að hafa aðeins um 20 lögreglumenn á vakt ( og svo á nú að bæta við 4 hermönnum úr víkingasveitinni ).
Ég held að það sé ljóst að þörfin fyrir löggæslu er metin misjafnlega í London og Reykjavík.“