Reynir Traustason skrifar eins konar manífestó fyrir DV undir sinni ritstjórn í leiðara blaðsins í dag. Þar eru margir ágætir punktar. Reynir viðurkennir að blaðið hafi gert mistök í fortíðinni, eins og þegar það var málgagn manna sem vildu „nota það í eiginhagsmunaskyni“ og seinna þegar því var stjórnað með þeim hætti að „fólk var niðurlægt í umfjöllun um viðkvæm mál“.
Reynir segir að blaðið eigi að verða „skjól og vettvangur litla mannsins í samfélaginu“.
Það þykir mér góð stefna. Veitir ekki af. Í þeirri mynd er DV bráðnauðsynlegt. En Reynir má samt dálítið passa sig. Blaðið er í eigu manna sem síst verða taldir í hópi litla fólksins. Þeir eiga banka, búðir, flugfélög og hvaðeina og hafa fullt af láglaunafólki í vinnu hjá sér – kannski má jafnvel segja að þeir séu, þegar öllu er á botninn hvolft, helstu óvinir litla mannsins.