Ef maður horfir aðeins út í geiminn á alla hina ókunnugu lífvana hnetti skilur maður aðeins betur áhyggjurnar af koltvísýringsmengun andrúmsloftsins. Lífið veltur jú á loftinu og engu öðru. Hnettirnir í kringum okkur eru óbyggilegir vegna þess að þá vantar lofthjúp eins og okkar eða eru umluktir eiturgufum.
Því getur varla talist fráleitt að tileinka sér nokkra varúð ef hætta er á að við séum að spilla andrúmsloftinu þannig að jörðin verði lítt byggileg fyrir afkomendur okkar.
Nú er vitnað í Björn Lomborg, þann sem eitt sinn var í viðtali í Silfri Egils. Lomborg segir að við eigum fremur að einbeita okkur að öðrum vandamálum, eins og alnæmi og malaríu, frekar en hlýnun andrúmsloftsins.
Þetta minnir svolítið á kommana í gamla daga. Maður talaði við þá um Tékkó eða Ungó og þá sögðu þeir – en hvað með Vietnam eða blökkumennina í Bandaríkjunum? Það var aldrei hægt að tala um einn hlut í einu. Þið ættuð nú frekar að beina sjónum ykkar að öðrum vandamálum, sögðu þeir.
Víst skal svo böl bæta að benda á eitthvað annað.
En þetta útilokar auðvitað ekki hvað annað. Við getum reynt að draga úr losun á eiturgufum og verið samt á verði gagnvart malaríu og alnæmi.
Svo getur mannkynið reyndar verið dálítið sniðugt. Það verður mikill bisness í nýrri mengunarlausri tækni. Heilmikill bisness. Þeir sem trúa á hagvöxt öðru fremur ættu að skilja það.
* Myndin er af Júpíter, einni af hinum óbyggilegu plánetum.