Styrmir Gunnarsson er fæddur 27. mars 1938. Hann verður semsagt sjötugur í vetur. Morgunblaðið hefur verið hart á því að starfsmenn þess láti af störfum þegar þeir eru komnir á aldur. Það er semsagt líklegt að þeir á Mogganum séu farnir að skima eftir ritstjóra til að taka við Styrmi.
Manni finnst Ólafur Stephensen vera líklegasti arftakinn. Hann er öflugur blaðamaður og gáfaður – helsti veikleiki hans er þó að hann hefur vaxið upp undir handarjaðri Styrmis og ætti kannski erfitt með að hrófla við arfleifð gamla ritstjórans.
Kannski myndu nýjir vendir sópa best á Mogganum?
Er ekki sagt að það sé álíka líklegt að ungt fólk nútildags verði áskrifendur að blaði og það fari í tunglferð? Þeir ættu kannski líka að pæla í þessu á DV?
Hvað er þetta annars með Styrmi og Ingibjörgu Sólrúnu. Leiðari og Staksteinar í dag. Má ekki segja að þetta sé orðið nokkuð þráhyggjukennt?
Þegar Ingibjörg Sólrún stígur í vænginn Atlantshafsbandalagið gerist Styrmir eindreginn andstæðingur Nató! Og Styrmir virðist telja að Samfylkingin sitji á svikráðum í ríkisstjórninni.
Ætli fleiri sjálfstæðismenn séu þeirrar skoðunar?