Aðeins meira um flug í Bretlandi. Neytendayfirvöld hérna hafa úrskurðað að flugfélög sem selja þjónustu sína á netinu megi ekki lengur fela hið raunverulega verð farmiðanna. Þetta hefur verið siður hjá mörgum flugfélögum eins og til dæmis Ryanair. Þá hefur alls kyns kostnaður bæst við á seinni stigum pöntunarinnar – flugvallarskattar, eldsneytisgjald, gjald fyrir farangur.
Maður veit ekki fyrr en farmiði sem átti að vera mjög ódýr er farinn að kosta ansi mikið.
Eftir harðvítug bloggskrif Friðjóns Friðjónssonar með bláu appelsínurnar lagði Icelandair þessa starfshætti af síðastliðinn vetur – býður reyndar á netinu farmiða aðra leið á verði sem ekki á sér neina stoð í veruleikanum. Það er erfitt að skilja hvaða blekking það er.
Iceland Express heldur hins vegar uppteknum hætti. Kostnaðurinn sem bætist við netbókanir þar er ótrúlega hár miðað það verð sem er auglýst í upphafi.
Raunar sýnist manni að Iceland Express standi varla undir því lengur að teljast lágfargjaldaflugfélag. Eini kosturinn við félagið er að það er ódýrara að fljúga aðra leið með því en Icelandair sem rígheldur í forneskjulega reglu um að flugfarþegar þurfi að ferðast á Saga Class ef þeir dvelja ekki yfir helgi.