Erlendis er farið að tala um Richistan, sérstakt land sem ríka fólkið lifir í. Ef marka má síðustu skattframtöl er Richistan líka farið að teygja anga sína hingað. Í Richistan vita menn ekki aura sinna tal. Það er búinn til alls konar varningur fyrir fólkið í Richistan og hann verður sífellt dýarari – demantsúr, handtöskur á fáránlegu verði, einkaþotur, snekkjur. Verð á hótelsvítum er fjarstæðukennt.
Þegar horft er á tekjur hafa forstjórar og bankamenn stungið svo rækilega af að annað eins hefur ekki sést. Brauðmolahagfræðin segir að molar hrjóti af borðum þeirra til okkar sem vinnum bara fyrir sléttum mánaðarlaunum. Við horfum samt með glýju á íbúa Richistan. Reynum að fylgja þeim eftir – því er stöðugt haldið að okkur að svona eigi að lifa. Lifum um efni fram – steypum okkur í skuldir. Á stöðum þangað sem Richistan teygir anga sína hækkar verð á skikkanlegu húsnæði fram úr hófi. Þannig neyðumst við að sumu leyti til að lifa eftir leikreglum þess.
Sú hugmyndafræði er algjörlega ríkjandi að ekkert sé eins merkilegt og að sýsla með peninga. Allir hinir eiga að bara að fá gömlu launin sín. Þeir sem eiga aura geta flutt þá milli landa eins og þeim sýnist og forðast að borga skatta. Þeir sem ekki geta verið með í þessari veislu – ná ekki að afla sér annarra tekna en lágra launa sem eru skattlögð upp í topp – fyllast vanmetakennd. Hvernig getur það öðruvísi verið?
Íslendingar eru að verða ríkari – vissulega. En stéttaskipting er að aukast verulega. Eða hvernig er til dæmis fyrir kennara, leikskólakennara og starfsmenn á heilbrigðisstofnunum að horfa upp á hvað störf þeirra eru lítils metin?
Sjáið til dæmis þessa bloggfærslu.