fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Tyrkjagrýlan í Eyjum og Eyjahafinu

Egill Helgason
Þriðjudaginn 31. júlí 2007 14:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

cliffs_of_heimaey_vestmannaeyjar_iceland.jpg

Það er merkilegt að fylgjst með deilum um póstmóderníska túlkun ungrar konu, Bryndísar Björgvinsdóttur, á Tyrkjaráninu. Greinin sem birtist í Lesbókinni beitir því viðhorfi að öll saga sé einhvers konar lygasagnir sem fólk segir sjálfu sér til að réttlæta stöðu sína og gerðir – þó ekki síst völd.

Þannig hafi Tyrkjaránið verið notað til að upphefja góða kristna menn á kostnað vondra manna af öðrum kynþáttum – sem nátturlega aðhyllast önnur og óæðri trúarbrögð.

Nú er þetta fræðileg aðferð sem er notuð á fjarskalega margt. Þessi nálgun er ekki frumleg lengur. Niðurstaðan er einatt sú sama – að ekki séu til nein sannindi, allt er svo fjarskalega afstætt. Það er enginn góður eða vondur, ekkert satt eða ósatt – það fer bara eftir sjónarhorninu, túlkuninni.

Með svipuðum hætti var marxismanum beitt í háskólasamfélaginu til skamms tíma. Maður þurfti eiginlega ekki að vita neitt um neitt – allt var hægt að skýra út frá stéttabaráttunni. Staðreyndir voru algjört aukaatriði, skemað hafði tekið yfir. Akademónarnir (sic!) fylltu bara út í það eftir kenningunni.

Nú má vera að svona rannsóknir séu stundum afhjúpandi. Þó koma þær í raun Vestmannaeyjum og fólkinu þar frekar litið við. Snerta heldur ekki atburðinn sem um er fjallað.

Enda er beinlínis sagt í grein Bryndisar að hann skipti engu máli:

„Þegar Tyrkjaránanna er minnst skiptir atburðurinn sem slíkur ekki máli, það sem máli skiptir er notkun okkar Íslendinga á honum. Þau „Tyrkjarán“ sem við höfum verið að minnast í gegnum aldirnar og minnumst í dag gerðust aldrei.“

Í Vestmannaeyjum var löngum einna fátækast fólk á Íslandi. Í umræddum atburði, Tyrkjaráninu, voru 36 íbúar eyjanna drepnir en 242 voru numdir á brott. Seldir í þrældóm. Sjóræningjarnir dvöldu í Heimaey í nokkra daga og dunduðu sér við að kvelja fólkið.

Það þarf ekki mikið að velta fyrir sér hver var góður eða vondur þarna: Þrælakaupmenn eða bláfátækt kotfólk á þessari afskekktu eyju sem aldrei hafði gert neinum mein.

minori_keros.jpg

Annað fátækt fólk veit ég um. Það bjó á grísku eyjunni Amorgos sem er mjög afskekkt. Þar hefur Tyrkjagrýlan verið notuð í gegnum aldirnar, enda voru sjórán þar afar tíð. Einna verst var ástandið um svipað árabil og sjóræningjarnir úr Barbaríinu herjuðu á Íslandi. Í eitt skipti voru allir eyjarskeggjar numdir brott og seldir í þrældóm. Afar fáir áttu afturkvæmt.

Á eyjum af þessu tagi finnur maður að sumu leyti ennþá fyrir hættunni af sjóræningjum. Þorpin eru yfirleitt lengst uppi á fjalli, á köldum, vindasömum og heldur óhentugum stöðum – svona líkt og byggðin á Heimaey væri upp á Stórhöfða. Þau voru byggð þarna til að fólkið hefði tima til að flýja sjóræningja þegar óvinveitt segl birtust við sjóndeildarhringinn.

Þannig eimir ennþá eftir af bláköldum veruleikanum sem ekki verður skýrður burt með einhverjum menningarfræðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“