Tony Blair var prédikari, Gordon Brown virðist ætla að vera móralisti í embætti. Veitir kannski ekki af í Bretlandi þar sem tíðkast að sumu leyti meiri lágkúra og lausung en víðast í Evrópu, ofdrykkja, eiturlyfjaneysla, andfélagsleg hegðun.
Brown ætlar að slá af plön um að reisa tröllaukið spilavíti í Manchester. Hann vill að tekið verði fastar á kannabisreykingum. Og nú vill hann að verði endurskoðuð lög sem heimila sölu á áfengi allan sólarhringinn. Afleiðing þessarar lagasetningar hefur verið stóraukið ofbeldi á götum breskra borga – heimsóknir á spítala vegna áfengisneyslu hafa þrefaldast.
Það er náttúrlega ein furðulegasta þversögnin í menningu Vesturlanda hversu mikið umburðarlyndi ríkir gagnvart víndrykkju og allri ógæfunni sem hún veldur – á sama tíma og búið er að hrekja tóbaksnotendur lengst út í skúmaskot.
Menn hafa lengi vitað að í Brown leyndist púrítani. Hann er skoskur, frá landi þar sem nokkuð strangur kristindómur er til siðs – forsætisráðherrann er af þeirri kirkjudeild sem kallast presbytarian og byggir á kenningum Kalvíns. Brown hefur jafnvel leyft sér að setja út á lágmenninguna sem tröllríður öllu í Bretlandi og má helst ekki gagnrýna án þess að vera sakaður um elítisma – hann sagði við Guardian að bókmenntahátíðir væru betri en sjónvarpsþátturinn Big Brother.
Það er spurning hversu langt Brown ætlar að ganga í þessa átt. Núorðið mega pólitíkusar varla tala um siðferði án þess að farið sé að gera grín að þeim. John Major varð á sínum tíma hált á herferðinni Back to Basics þar sem hann ætlaði að endursiðvæða breskt samfélag. Á sama tíma komu upp ýmis hneykslismál sem sýndu að þingmenn Íhaldsflokksins voru gerspilltir upp til hópa – og hræsnarar í þokkabót.
En fyrir þá sem vilja kynna sér nánar þá andlegu fátækt sem er útbreidd í Bretlandi þá bendi ég á þessa stórkostlegu bók.