Það er áhugavert að fylgjast með Sarkozy, hinum nýja forseta Frakklands, ekki síst því hvernig hann fer með andstæðinga sína úr Sósíalistaflokknum.
Hann gerði kampavínssósíalistann svokallaðan Bernard Kouchner að utanríkisráðherra. Kouchner var ráðherra hjá Mitterrand. Nýtur nú lífsins í hinu nýja hlutverki – þykir reyndar stundum vera á hálum ís enda ekki hefðbundinn stjórnmálamaður. Kouchner er fulltrúi þess sem má kalla „frjálslynda íhlutunarstefnu“ og nýtur ekki mikilla vinsælda eftir Írak.
Annar áhrifamaður úr Sósíalistaflokknum, Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Lionels Jospin, verður forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í umboði Sarkozys.
Einn þekktasta bandamann Mitterrands, Jack Lang, setti Sarkozy svo í nefnd til að nútímavæða stofnanir franska ríkisins. Lang hefur um árabil verið áhrifamaður í Sósíalistaflokknum – náði mestri frægð þegar hann var vinsæll menningarmálaráðherra.
Þetta fer mikið í taugarnar á sósíalistum – í bréfi þar sem Lang sagði sig úr stjórn flokksins vandaði hann formanni hans, François Hollande, ekki kveðjurnar. Flokkurinn er hreint út sagt í rusli. Forsetaframbjóðandinn Ségolène Royal hefur sagt skilið við Hollande fyrrum sambýlismann sinn. Þetta er eins og í lélegri sápuóperu.
Annars horfði ég eitt sinn á eftirfarandi skoðanaskipti milli Mitterrands og Jacks Lang. Þetta var í Árnastofnun við Suðurgötu. Þeir eru að virða fyrir sér handritin.
Mitterrand skoðar handrit gegnum gler. Jack Lang fer að skýra út fyrir honum.
Mitterrand hlustar. Setur svo upp þóttasvip. Eins og hann sé að segja:
„Hvað veist þú um þetta? Þú hefur aldrei séð þetta áður!“
Það kemur fát á Lang. Hann er á svipinn eins og hann sé að falla úr náð hjá forsetanum (kónginum?).
Mér sýnist hirðmaðurinn stynja upp:
„Ég veit það. Ég las það….“
„Þá hefurðu lesið það í gær!“ segir hrokafullur og afar franskur svipur forsetans.
Um kvöldið fór Lang á veitingahúsið 22 með Sykurmolunum og baðaði sig í vinsældum sínum eins og frægt varð.