Í fyrrasumar þegar við vorum í Bretlandi var búið að leggja blátt bann við því að vökva gróður. Túnin í görðunum í London voru gul og skrælnuð líkt og þau væru suður á Sikiley. Það var átakanlegt að sjá trjágróðurinn.
Öll vatnsból voru að tæmast, það lá við neyðarástandi vegna stanslausra hita.
Nú er farið að líða á sumarið en samt er allt iðagrænt og fallegt í London. Úrkoma í Englandi er víða svo mikil að á einum degi rignir miklu meira en á heilum mánuði í meðalári – eða það segir Einar Sveinbjörnsson í ágætri veðurskýringu.
Hann útskýrir líka hvers vegna rignir ekki svo mikið á okkur í London þótt geri hellirigningar aðeins norðar og vestar í landinu.
Í Grikklandi kvarta menn hins vegar undan hitum og þurrkum. Sumir fjölmiðlar segja að ekki líði á löngu áður en fari að myndast eyðimerkur við norðanvert Miðjarðarhaf – að Sahara færi sig smátt og smátt þangað. Skógareldar eru mikið vandamál.
Samt finnst mér ég einhvern veginn muna að sumarið í fyrra hafi ekki verið neitt sérstakt í Grikklandi – að það hafi verið frekar kalt í júní og september og ekki gert neina ofurhita yfir hásumarið.
En það er auðvitað misjafnt hvað menn eru stálminnugir á veður. Fjölmiðlar eru það yfirleitt ekki.