Við ættum kannski að fara að opna augu okkar fyrir því að menn sem reka stórfyrirtæki á Íslandi eru ekki í góðgerðabisness. Hvað varð um virðisaukaskattslækkunina sem átti að koma landsmönnum til góða? Og af hverju er aftur svona dýrt að fljúga til og frá landinu?
Eitt bjánalegasta viðkvæði sem maður heyrir hjá Íslendingum er að Bónus hafi bætt kjör þjóðarinnar meira en öll barátta verkalýðshreyfingarinnar. Semsagt að Bónus sé góðgerðastofnun – og þá væntanlega móðurfyrirtækið Baugur líka. Jóhannes er ágætur maður – en þetta er miklu flóknara en svo.
Samskonar lágvöruverðsverslanir hafa opnað út um allan hinn vestræna heim síðustu fimmtán árin. Alls staðar hafa þær náð sama tangarhaldi, alls staðar hafa áhrifin á vöruverðið verið hin sömu. Í Bandaríkjunum heitir þetta Wal Mart, í Þýskalandi Aldi, í Bretlandi Tesco.
Stöðugt meiri kröfur um lágt verð hafa líka sínar afleiðingar. Reglan í þessu viðskiptaferli virðist vera sú að einungis tveir aðilar megi hagnast: Eigendur stórverslananna sem græða á tá og fingri, deila og drottna yfir markaðnum, og að vissu leyti neytandinn sem vill borga lágt verð.
En hver er fórnarkostnaðurinn við þetta? Framleiðendurnir fá sífellt minna í sinn hlut. Framleiðslan er færð til landa þar sem laun eru á því stigi að við myndum kalla það þrældóm. Bændur fá líka minna fyrir afurðir sínar – ávexti, grænmeti, korn. Ekki síst hefur athyglin beinst að hlutskipti kaffibænda í Afríku.
Litli maðurinn getur ekki keppt við þetta. Smábændur þjást í þessu kerfi, stétt smákaupmanna og smáeigenda deyr út. Í Bretlandi eiga stórar keðjur hérumbil allt. Maður er sér sömu þróun á Íslandi.
Þetta er líka mjög óumhverfisvænt. Vörur eru fluttar langa leið, jafnvel milli heimsálfa – borgararnir þurfa líka að stunda mikinn akstur til að afla sér aðfanga. Vörurnar verða um margt vafasamari. Til marks um það þarf maður aðeins að kynna sér hvernig staðið er að fjöldaframleiðslu kjúklinga. Sá iðnaður er hreinræktað ógeð.
Það er oftlega rætt um að nauðsynlegt sé að frelsisvæða landbúnaðinn á Íslandi. Og jú, sjálfsagt er það rétt. En menn verða líka að gæta að því að þetta getur þýtt að bændur verði algjörlega upp á náð og miskunn stórverslananna komnir líkt og hefur gerst víða um heim – að þeir verði svo að segja eign Baugs.