Hafi einhver áhuga á skilst manni að hrunið á bandaríska húsnæðismarkaðnum sé slíkt að hægt sé að hirða sumarhús í Flórída fyrir lítið sem ekki neitt. Til dæmis er mikið framboð af húsum sem spekúlantar keyptu og ætluðu að selja þegar verðið hækkaði enn – en neyðast nú til að losa sig við til að bjarga sér.
Maður spyr hvenær hrunið kemur á Spáni þar sem Íslendingar hafa líka verið að kaupa orlofshús? Þar hefur verðið lengi farið hækkandi – menn hafa lengi spáð því að það hljóti að falla.
Umhverfið í þessum byggðum – urbanizaciones – er sérlega óyndislegt. Svona hús hafa risið meðfram mestallri strönd Spánar, frá Valencia til Cadiz. Það er jafnvel talað um eina mestu umhverfiskatastrófu í heimi. Mikið af þessum byggðum eru ólöglegar – þær eru fjármagnaðar með glæpafé, miklu af því núorðið frá Austur-Evrópu – og oft rísa þær án þess að lögformlegt skipulag sé fyrir hendi. Þá er réttur kaupandans gagnvart yfirvöldum lítill.
Maður veit ekki í hvaða landi maður er þegar komið er í þessar byggðir. Þetta er varla Spánn. Fæst af aðkomufólkinu sem þarna sest að leggur á sig að læra spænsku. Það hittir varla Spánverja nema kannski afgreiðslufólk – oftar en ekki með hundshaus gagnvart útlendingunum.
Út um allt eru verslanamiðstöðvar með þýskum veitingastöðum og enskum krám. Maður verður ekki var við að neina menningarstarfsemi. Auðvitað skín sólin, maturinn og vínið er ódýrt, en stendurnar eru skítugar.
Það er gæfa Grikkja að hafa ekki farið að koma upp slíkum orlofsbyggðum. Fyrir nokkrum árum kom auðkýfingurinn George Soros til Grikklands og ráðlagði þeim að hefja byggingu slíkra hverfa. Fjölmiðlarnir tóku ráðleggingum milljarðamæringsins fagnandi, en ég vona að þeir hafi ekki gert mikið í því.
Ég held reyndar að veturinn víða í Grikklandi sé of kaldur til að laða þangað eftirlaunafólk frá Norður-Evrópu í stríðum straumum, að minnsta kosti úti á eyjunum þar sem sumrin geta verið furðu stutt.
Sem er afar þakkarvert.