Það er makalaust hvað Grikkir rækta vel tónlistarhefð sína. Þegar maður fer um landið heyrir maður varla annað en gríska tónlist. Engilsaxnesk músík er sjaldan spiluð. Grísk tónlist er er furðu fjölbreytt. Sumt af henni inniheldur mjög sterk austræn áhrif – mikið af því er mjög vinsælt í Tyrklandi. Svo er það rebetiko – sem kallaður er gríski blúsinn – og dafnaði í búllum í hafnarborgum eins og Pireus. Iðkendur hans voru gjarnan miklir hassreykingamenn. Frægasti flytjandinn var karl sem hét Marko Vamvakaris frá eyjunni Syros; ég kom þar eitt sinn á veitingahús sem er helgað honum og þar sem hangir uppi stór mynd af Marko og hljóðfærið hans – bousouki.
Þessi tónlist lifir enn góðu lífi – áðan hlustuðum við á hóp af ungu fólki spila rebetiko fyrir utan kaffihús hér á Amorgos, á litlu blómskrýddu torgi undir stjörnuhimni.
Hér er myndband þar sem sonur Markos Vamvakaris, Stelios, flytur eitt frægasta lag hans, Fragosyriani, um stúlkuna frá Syros. „Eldur brennur í hjarta mínu, þú hefur hneppt mig í álög sæta Frangosyriani…“
[youtube=http://youtube.com/watch?v=fGFtIAtA2H0&mode=related&search=]
Uppáhaldsþáttur minn í grísku sjónvarpi er þáttur sem er seint á laugardagskvöldum á stöðinni NET. Þar kemur fólk saman, borðar, drekkur, reykir – og syngur. Fólkið er á öllum aldri. Sumir virðast vera lögformleg gamalmenni þangað til þeir stíga fram og syngja og af furðulegu öryggi. Þetta er að sönnu frjálslegasti sjónvarpsþáttur sem ég hef séð. Það er ekkert æft – bara spilað af fingrum fram.
Svo er dansað. Í grískum dönsum er mikil einstaklingstjáning. Það er eins og þeir sem taka þátt í dansinum séu aðallega að dansa við sjálfa sig. Grikkir eru miklir einstaklingshyggjumenn. Zorbas er klisjan um það – hún er ekki alveg ósönn.