Guðmundur Svansson, netverji og snillingur, sendi mér eftirfarandi skilaboð í framhaldi af tilkynningu minni um málverkasýninguna með verkum úr Íslandssögunni.
„Ég leyfi mér að gerast svo djarfur að stinga upp á þessum verkum til viðbótar:
Fjölmenn útför Jónasar frá Hriflu við Þjóðargrafreitinn á Þingvöllum.
Kristján Danakonungur þakkar þjóðinni sambúðina um leið og hann lýsir hana ævarandi sjálfstæða á Þingvöllum.
Íslenskir þingmenn að djamma með Bjelke greifa að loknum Kópavogsfundinum (sem er reyndar ekki uppdiktun).
Skarphéðinn að gráta.
Og síðast en ekki síst Egill Skallagrímsson á gamals að dreifa þú veist hverju í Almannagjá ….“
Áður voru komin eftirtalin verk:
Jón Sigurðsson í dönsku fangelsi 1856.
Jónas Hallgrímsson þjóðskáld krýndur lárviðarsveigum við heimkomuna til Íslands 1874.
Þýskur her gengur á land í Reykjavík í maí 1940.
Einar Olgeirsson lýsir yfir íslenska sovétinu eftir kommúnistar taka völdin í Reykjavík í mars 1949.
Gunnar Gunnarsson fær nóbelsverðlaunin í Stokkhólmi 1954.
Allt verður þetta í sósíalrealískum stíl, stórar myndir og vel málaðar.
Verst að ég kann ekki að mála sjálfur. Getur einhver gert það fyrir mig?