fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Dýrðardagar

Egill Helgason
Laugardaginn 30. júní 2007 07:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Folegandros búa að staðaldri um sex hundruð íbúar. Þeim fjölgar náttúrlega á sumrin. Ferðamennskan verður samt aldrei yfirþyrmandi – best er þó að reyna að forðast grískar eyjar seinnipartinn í júlí og mestanpart ágústmánaðar. Þá fer öll gríska þjóðin í sumarfrí.

Hérna hittir maður sama fólkið aftur og aftur. Eleni er stórkostleg kona, arkitekt, heimspekingur, býr í París, talar óskaplega mikið, gift manni sem heitir Patrick. Maður skilur ekkert af því sem hann segir, en hann er mjög vingjarnlegur. Eleni er frá Aþenu, af borgaralegum ættum, lærði í Þessaloniki og Sorbonne, kemur hingað á hverju ári til að dýpka þekkingu sína á eyjunni og íbúum hennar. Approfondir kallar hún það upp á frönsku. Segir reyndar að hugmyndin sé komin frá gríska skáldinu Seferis.

Eleni er á móti því sem hún kallar zapping menningu nútímans. Því að allir séu sífellt að skipta um stöð og æða út um allt. Hún orðar oft það sem manni finnst maður vera að hugsa. Við höfum komið til Folegandros síðustu fjögur árin. Í hvert skipti lengist dvölin. Manni finnst ekki ástæða til að fara annað.

Það er nokkuð af fólki sem kemur hingað ár eftir ár. Við höfum til dæmis kynnst bandarískri fjölskyldu. Þau koma stundum á óvart. Í fyrradag misstu þau út úr sér að guðfaðir Jakobs, fimm ára sonar þeirra, vinar Kára, sé tónlistarmaðurinn David Crosby.

Ég var frekar hrifinn af því ég hef alltaf verið aðdáandi Davids Crosby. Hann var svo ótrúlega flottur í kögurjakkanum sínum og með rostungsyfirskeggið. Þau segja að hann sé stórkostlegur karakter.

Við borðið sat vinur þeirra sem heitir Des og er hér á eyjunni í fyrsta sinn. Hann sagði að guðfaðir tvíburanna sinna, sem líka eru fimm ára, væri John Bon Jovi. Ég gaf ekki mikið út á það, hélt hann væri að grínast.

En þetta mun vera satt, Des hefur samið ótal lög sem hafa komist á vinsældalista í Bandaríkjunum – og er meðhöfundur lagsins fræga Living on a Prayer. Des – sem heitir Desmond Child – býðst til að koma til Íslands að miðla þekkingu sinni. Hann er hættur að drekka og ég held að honum leiðist.

Hann er hérna með finnskri hljómsveit sem heitir The Rasmus. Þeir eru að semja efni á plötu á hóteli hérna úti við klettabrúnina. Segjast hafa spilað í Reykjavík.

Faðir Jakobs er hins vegar Albhy Galuten, sem starfaði sem upptökustjóri með Bee Gees, Barböru Streisand, Eric Clapton og fleirum í eina tíð – vann meðal annars við tónlistina í Saturday Night Fever og Grease – en er nú sérfræðingur í tölvuöryggismálum. Starfar sem yfirmaður hjá Sony og heldur langar ræður yfir mér um allar hætturnar sem leynast á netinu varðandi einkalíf, höfundarrétt – ein leiðin sem tölvuþrjótar eru til dæmis farnir að fara er einfaldlega að stela persónum fólks, stofna fyrirtæki í nafni þess, vefja það skuldum, koma því í alls kyns vandræði…

Þarf kannski netlöggu?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“