fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Kjalvegur, Örfirisey, Framtíðarlandið, Stúdentapólitík, Moggaforsíða

Egill Helgason
Mánudaginn 5. febrúar 2007 18:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er ekki alveg að kaupa þá kenningu að fjallvegur yfir Kjöl eyðileggi hálendi Íslands. Þessu er meðal annars haldið fram í mjög æstum leiðara í Mogganum í dag þar sem Ómar Ragnarsson og Andri Snær Magnason eru krafðir svara um framkvæmdina.

Snyrtilegur upphækkaður vegur þarf ekki að vera til meiri lýta en vegarslóðar þaðan sem sem berast rykmekkir yfir allt hálendið. Eitthvað hlýtur líka að vera til þess vinnandi að stytta leiðina til Norðurlands – ekki síst á tíma loftslagsbreytinga.

Mikið talað um stærstu ósnortnu víðerni í Evrópu. Við gætum náttúrlega farið alla leið og hleypt engum þangað inn nema kannski þeim sem fara um á hestum postulanna.

Ég sé að bæði Mörður og Ögmundur rjúka upp vegna þess að vegurinn er einkaframtak. En er það ekki bara hið besta mál – með gjaldtöku og öllu?

— — —

Maður verður víðar var við umhverfisöfga. Nú les maður á annarri hverri bloggsíðu að ekki megi byggja út i í Örfirisey vegna þess að svæðið þar muni fara undir sjó. Jarðfræðingur kemur í sjónvarpið og segir eitthvað í þessa veru.Nú er það svo að enginn veit hversu yfirborð sjávar mun hækka mikið vegna gróðurhúsaáhrifa. Í nýrri skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna eru efri mörk hækkunar sjávarborðs meira að segja lækkuð allverulega frá því sem var í fyrri skýrslum.

Þetta er svona eins og að segja að það taki því eiginlega ekki að gera neitt, því örugglega munum við öll deyja fyrr eða síðar.

Má ekki líka hugsa sér að menn reyni að byggja með þeim hætti að það bjóði ekki sjávarflóðum heim? Oft þarf ekki meira en einn öflugan varnargarð.

Ég hef verið fylgjandi því að byggja með ströndum í borginni. Það ætti að hafa í för með sér þéttingu byggðar, styttri ferðalög og þar af leiðandi minni akstur, minni mengun, minni tímasóun fyrir borgarana. Fyrir utan að veturinn er einfaldlega styttri niður við sjávarsíðuna – þótt þess sé reyndar að gæta að býsna vindasamt er úti í Örfirisey.

Ef þetta þýðir að byggt sé á uppfyllingum – ja, þá það. Það er víst engin nýung hér á landi. Stór hluti Kvosarinnar, sem er elsti hluti Reykjavíkur, stendur á uppfyllingu. Ef ekki hefði verið fyllt upp í myndi sjórinn enn gutla í Hafnarstrætinu líkt og hann gerði á 19. öld.

— — —

MIkil spenna mun nú vera ríkjandi innan Framtíðarlandsins vegna hugsanlegs þingframboðs. Að mörgu leyti skilur maður hvers vegna hópur fólks þar inni vill bjóða fram.Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn virðast hvergi ætla að slá af í sókninni eftir stóriðju – allavega er ekki á lofti nein alvöru teikn um það. Það er bara búið að senda málin niður í hérað – nú eru það sveitastjórnir sem eiga að ákveða (og svo auðvitað Landsvirkjun). Það er skrítinn feluleikur.

Ósk Vilhjálmsdóttir, varaformaður Framtíðarlandsins, orðaði þetta ágætlega í þætti hjá mér í gær þar sem hún sagði að andstaðan við stóriðjuna hefði lokast inni í sósíalistaflokki. Það er rétt, andstaðan nýtur sín hvergi annars staðar – en hvað eiga þeir að kjósa sem ekki geta greitt Vinstri grænum atkvæði?

Því er ekki furða að einhverjir í Framtíðarlandinu séu að pæla. Þetta hefur hins vegar vakið mikið uppnám í stjórnmálaflokkunum. Sagan segir að útsendarar þeirra í Framtíðarlandinu og utan þess fari beinlínis hamförum til að koma í veg fyrir að af framboði verði.

— — —

Mér hefur stundum fundist að sumt fólk eigi að ganga með skilti þar sem stendur: Var í stúdentapólitíkinni!

Þá getur maður strax þekkt þá úr sem létu að sér kveða á þeim vettvangi. Ungt fólk á að lesa, fræðast, læra, horfa á góðar kvikmyndir, ferðast, skemmta sér, en guð forði því frá stúdentapólitík, þar sem strax hefst einhvers konar gelding hugarfarsins sem síðan er framhaldið í stjórnmálalífi landsins. Ég held reyndar að stærstur hluti háskólanema viti þetta, endar er ekki nokkur leið að fá þá til að kjósa í stúdentakosningum.

Össur talaði mikið um það til skamms tíma að hópur sem kallast Röskvukynslóðin myndi taka við Samfylkingunni. Nú er þetta fólk komið inn í flokkinn, nánast en masse, og við sjáum árangurinn – fylgishrun.

— — —

Mogginn hefur alltaf verið mjög stofnanahollur fjölmiðill, viljað standa vörð um stofnanir samfélagsins, helst ekki rugga bátnum ef hægt er að komast hjá því. Ein helsta birtingarmynd þessa hefur verið tilhneiging blaðsins til að þegja yfir óþægilegum fréttum eða birta ekki fyrr en í lengstu lög. Um það eru ótal dæmi. Þess vegna kom hin margumtalaða forsíða blaðsins á föstudag svo á óvart.

Í tilefni af þessu fór gamall Moggamaður, Pétur Gunnarsson, að tala um glasnost í Hádegismóum. Daginn eftir dró Pétur þó í land og birti þessa mergjuðu samsæriskenningu sem er ættuð frá Sigurði G. Tómassyni:

"Þá vekur það sérstaka athygli að þessir fimm dómarar sem Morgunblaðið birtir mynd af á forsíðu eru hinir sömu og höfnuðu lögbanni á Fréttablaðið í tölvupóstsmáli Jónínu Benediktsdóttur og hafa sömuleiðis allir átt þátt í dómum réttarins í Baugsmálinu. […] Ósamkvæmni Morgunblaðsins í afstöðu blaðsins til kynferðisbrotadóma Hæstaréttar og tengsl ritsjórans við Baugsmálið hljóta að vekja grunsemdir um að þessi fréttaflutningur byggist á öðru en málefnalegri afstöðu."

— — —

Bendi loks á athyglisverða grein eftir Kristin H. Gunnarsson þar sem hann fjallar um hvernig stórfyrirtæki standa skil á skatti. Ekki allt sem sýnist í því efni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út