fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Eitruð blogg, rógurinn gegn Sólrúnu, Hillary og Ségolène, góður húmor

Egill Helgason
Mánudaginn 9. apríl 2007 15:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oliver Kamm skrifar merkilega grein í Guardian í morgun um bloggið sem tröllríður hinum pólitíska heimi. Kamm hefur sitthvað til síns máls, þótt ég sé kannski ekki að öllu leyti sammála honum.Bloggið er svosem nógu lýðræðislegt, segir Kamm, það eru sáralitlar hindranir – bloggararnir þurfa bara að hafa nógan tíma – en það er einatt slappt og klasturslegt, keppir alls ekki við alvöru dagblöð þar sem eru í gildi reglur um framsetningu og efnistök.

Maður þarf ekki að vita neitt eða kunna neitt til að blogga. Og þannig eru bloggararnir að sumu leyti eins og hjörð, skrif þeirra eru býsna fyrirsjáanleg – það er nánast eins og maður sé staddur í bergmálsherbergi, segir Kamm.

Og svo er það skítkastið. Allur óhróðurinn sem er settur fram um stjórnmálamenn og opinberar persónur. Hér höfum við dæmi um þetta í hinni linnulausu ofsóknarherferð gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem er stunduð á vefnum – einatt undir nafnleysi.

Þess utan er bara hrein vitleysa – eða hvað á maður að segja um svonalagað?

Pólitísk blogg eitra umræðuna er niðurstaða Kamms. Er það eitthvað sem við þurfum að hugsa um?

— — —

Annars gekk ég á vin minn úr Sjálfstæðisflokknum um daginn og spurði hvers vegna hann hataði Ingibjörgu Sólrúnu svona mikið? Hann stundi einhverju upp, en ekkert af því var nógu konkret til að ég gæti lagt það á minnið. En ég spyr aftur – hvað hefur hún gert til að verðskulda þessa tegund af umtali?

— — —

Guðmundur Magnússon veltir stöðu Ingibjargar Sólrúnar líka fyrir sér í grein sem hann skrifar á bloggsíðu sem hann hafði opna yfir páskana og svo ekki meir – eða það skilst mér.

Getuðu ekki haft opið aðeins lengur, Guðmundur? Þú ert einn af fáum sem gefur lífinu í bloggheimum raunverulegt gildi.

— — —

Femínistinn Madeleine Bunting skrifar í Guardian um konur sem eru að bjóða sig fram í tvö valdamestu embætti í heimi, Hillary Clinton og Ségolène Royal. Hún segir að báðar séu afkvæmi femínistahreyfingarinnar og báðar leggi áherslu á það í kosningabaráttu sinni að þær séu konur og mæður.

Það er vissulega rétt að það yrðu mikil tíðindi ef önnur hvor þeirra næði kjöri. En því miður held ég að séu litlar líkur á því. Nicolas Sarkozy verður nær örugglega kosinn forseti Frakklands og ég held að Hillary sé alltof umdeild persóna til að verða Bandaríkjaforseti. Við eigum eftir að sjá massífa rógsherferð gegn henni.

Þannig að líklega tapa þær báðar. Rétt eins og Ingibjörg Sólrún á Íslandi.

— — —

Hugmyndir Princeton prófessorsins um að sprengja Ísland í staðinn fyrir Írak eru bráðfyndnar. Minna að sumu leyti á háðsádeilur Jónatans Swift. Sá ágæti húmoristi Júlíus Valsson svarar þessu ágætlega á bloggi sínu:

"Vonandi nota þeir nifteindasprengjur á okkur, þá skemmast ekki handritin."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út
Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“