Þetta bréf barst síðuhaldara.
— — —
Ég er með viðbótarlífeyri í Kaupþingi og var ekkert mikið að spá í hvernig
þetta færi fram allt saman, vissi bara að leiðin sem ég valdi var erlend
hlutabréf. Ég kíkti samt á þetta við og við og það voru engar rosalegar
hreyfingar á þessu, þó jákvæð ávöxtun.
Í haust hrundu svo bankarnir og samvæmt yfirliti tapaði ég 38% (þetta
hefur eitthvað lagast aftur) svo ég hafði samband við bankann minn og
spurði hvort fall krónunnar vægi ekki upp á móti lækkun hlutabréfa og mér
var svarað að vegna gjaldeyrissamninga sem voru gerðir til að minnka
áhættu þá hefði ég tapað þessu fé.
Bað um að fá sjá samningana, ekki hægt. Bað um eitthvað þar sem stæði svart
á hvítu að ég mætti ekki sjá þetta, ekki svarað.
Sendi póst á FME og spurði hvort bankanum væri stætt á þessu, þeir hlytu
að verða að sýna fram á að þessir samningar væru til, svarið var:
„Það er hvergi í lögum kveðið skýrt á um það að viðskiptavinir skuli eiga
rétt á að sjá alla þá fjármálagerninga sem eru undir liggjandi í sjóðum
sem þeir eiga í, þannig að hér er augljóslega vandi á höndum“
Ég bað hann þá að vísa mér á þessi lög sem hann var að tala um, ekkert svar.
Ef þessir samningar voru gerðir, sem ég er farinn að efast um þá voru þeir
að reikna með styrkingu krónunnar á meðan Bakkabræður og fleiri eigendur
voru að veðja veikingu.