Dæmi um hækkandi vöruverð milli vikna – Gengisbreytingum og flutningskostnaði kennt um
Bensín, agúrkur og grísk jógúrt eru meðal þeirra vara sem hafa hækkað í verði hjá verslunarrisanum Costco á undanförum vikum. Inni á facebookhópnum Keypt í Costco Ísl.-Myndir og verð lýsa meðlimir yfir þungum áhyggjum sínum og óttast áframhaldandi þróun fyrir íslenska neytendur.
Yfir 90 þúsund meðlimur eru í umræddum facebookhópi sem varð til við opnun verslunarrisans á Íslandi. Síðan þá hafa meðlimur reglulega deilt kaupum á vörum úr versluninni og skipst á ábendingum. Hafa meðlimir gjarnan keppst við að hrósa Costco fyrir að bjóða Íslendingum lægra vöruverð en tíðkast hefur hér á landi og lýst yfir ánægju sinni með aukna samkeppni á markaðnum.
Undanfarnar vikur hafa æ fleiri ábendingar borist um verðhækkanir á einstaka vörum og má greina vott af örvæntingu meðal sumra meðlima hópsins en bent er á að verðlagið í Costco hafi haldist nokkuð stöðugt hingað til.
Þann 12.október síðastliðinn bendir meðlimur hópsins á að að þann 24.september hafi grísk jógúrt kostað 699 krónur. 8. október síðastliðinn hafði verðið hækkað um hundrað krónur. Annar meðlimur deilir ljósmynd af kassakvittun sem sýnir 50 prósent verðhækkun á kíló á sveppum.
Þá deilir annar meðlimur því með hópnum að í júlí síðastliðnum hafi sex niðursuðudósir af kjúklingabringum kostað 3.599 krónur. 15.október síðastliðinn var verðið komið upp í 5.599 krónur.
Þá kveðst annar meðlimur hafa tekið eftir umtalsverði verðhækkun á gervijólatrjám. Eitt slíkt tréð kostaði 33.999 krónur þann 15.október síðastliðinn en í gær hafði verðið hækkað um 30 prósent og kostar tréð nú 44.299. Annar vökull neytandi leggur fram tvær kassakvittanir úr versluninni sem sýna hækkað verð á 3 agúrkum í pakka. Samkvæmt fyrri kvittuninni kostuðu gúrkunar 429 krónur í síðustu viku en í dag hefur verðið hækkað um 100 krónur og kostar gúrkunar nú 529 krónur. Þá bendir einn af meðlimum hópsins á það í gær að þrír kassar af hinum vinsælu Dolce Gusto kaffihylkum séu nú 200 krónum dýrari en í upphafi mánaðarins.
Margir fögnuðu lækkuðu verði á bensíni þegar Costco opnaði hér á landi en lítraverðið var þá allt að 30 krónum lægra en hjá íslensku olífélögunum. Verðið á lítranum hefur hins vegar farið hækkandi á undanförnum vikum. Fréttablaðið greinir frá því þann 12.október síðastliðinn að nú muni aðeins 5,9 krónum á lítranum af 95 oktana bensíni hjá Dælunni og Costco og aðeins 4 krónum á dísillítranum. Um er að ræða minnsta mun á lítraverði s hjá íslensku olíufélagi og Costco frá því verslunin var opnuð hér á landi.
Ýmsar vangaveltur hafa sprottið upp meðal meðlima hópsins sem ýmist bölva ofangreindum verðhækkunum í sand og ösku eða koma verslunarisanum til varnar.
Bent er á að verð í Costco sé ekki fast heldur breytilegt milli vikna þar sem að Costco panti vörur frá mismunandi byrgjum eftir gæðum og verði. Því sem um að ræða mismunandi stærðir eða gerðir og þá eðlilega mismunandi verð.
Einnig er bent á að Costco kaupi sumar af vörum sínum frá öðrum heildsölum þar sem verðið getur einnig verið mismunandi. Þannig skili hækkað verð hjá seljanda sér í hækkuðu verði til neytanda.
Einnig er bent á að gengi hafi bein áhrif á vöruverð í versluninni og að Costco þurfti bregðast við íslenskum gengissveiflum eins og önnur fyrirtæki á Íslandi. Sem dæmi má nefna að gengi evrunnar hefur hækkað um rúmlega 11 prósent frá því verslunin opnaði hér á landi í maí.
Þá er því fleygt fram að samkvæmt vitnisburði ónefnds starfsmanns Costco sé um að ræða svokallaða flata hækkun, þar sem allar vörur hækka um hundrað krónur.
Þá kveðst einn af meðlimum hópsins hafa það eftir starfsmanni Costco að ástæða hækkunarinnar sé sú að Eimskip og Samskip hafi hækkað flutningsverð sitt sem skili sér í auknum kostnaði á allar vörur.