fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024

Þessi ákvörðun getur skipt sköpum fyrir þjóðarheill

Stefán Baldursson, leikstjóri og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri, gerir upp menningarárið 2017

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 4. janúar 2018 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í menningarannál ársins 2017 sem birtist í áramótablaði DV verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2017 og greina stöðuna í menningunni í árslok.


fyrrum Þjóðleikhússtjóri og Óperustjóri
Stefán Baldursson fyrrum Þjóðleikhússtjóri og Óperustjóri

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stefán Baldursson

Leikstjóri, fyrrum Þjóðleikhússtjóri og Óperustjóri

Hvað var eftirminnilegasta listaverk eða menningarafurð ársins 2017?

Varðandi eftirminnilegasta menningarviðburð ársins ætla ég að halda mig við mitt starfssvið, leiklistina. Minnisstæðasti listviðburður ársins var sýning Borgarleikhússins á Guð blessi Ísland. Sýningin sameinaði listræna framsækni og skarpa samfélagsrýni. Fyndin, áhrifamikil og háðsk. Svo til allir þættir sýningarinnar voru vel heppnaðir og öll meðul leikhússins nýtt, sjónrænt var hún stórbrotin og leikendur léku hver öðrum betur með Brynhildi Guðjóns í fararbroddi sem sýndi afburðaleik. Íslensk leiklistarfrumsköpun í hæsta gæðaflokki. Þorleifur Örn er orðinn einn okkar áhugaverðasti leikstjóri enda yddaður og sjóaður af tugum sviðsetninga í Þýskalandi.

Meðal annarra eftirminnilegra sýninga á árinu voru sýning Þjóðleikhússins á franska leikritinu Föðurnum, áhrifamikil og vönduð sýning þar sem Eggert Þorleifsson átti stórleik. Þá var gaman að sjá nýtt leikrit frá yngsta leikskáldi okkar, Tyrfingi Tyrfingssyni í Borgarleikhúsinu, Kartöfluæturnar, tvímælalaust hans besta leikrit til þessa, hrátt og ósvífið eins og hans er von og vísa en stíll hans og efnistök eru öðruvísi en hjá nokkrum öðrum íslenskum höfundi. Leikararnir nýttu sér þetta til hins ítrasta undir afbragðsgóðri leikstjórn Ólafs Egilssonar með Sigrúnu Eddu í fararbroddi.

Mikill kraftur var í starfsemi sjálfstæðu leikhópanna í Tjarnarbíói þar sem boðið er upp á nýjar dans-og leiksýningar næstum vikulega. Eftirminnilegastar fundust mér Sóley ræstitæknir sem Sólveig Guðmundsdóttir lék á áhrifaríkan hátt og hin sprenghlægilega Ævisaga einhvers í flutningi hins frumlega leikhóps Kriðpleirs.

Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?

Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2017?

Það sem markverðast var í menningarlífinu á árinu og einkennir það er hin gríðarlega gróska, fjölbreytni og framsækni í öllum listgreinum. Orðstír okkar berst í vaxandi mæli út um allan heim eins og ótal verðlaun og viðurkenningar til íslenskra listamanna bera vott um. Íslenskt tónlistarlíf blómstrar sem aldrei fyrr, bæði varðandi flutning sígildrar tónlistar hjá Sinfóníunni, Íslensku óperunni og fleirum, sem og samtímatónlist: dægurtónlist, rokk og rapp. Þúsundir erlendra gesta flykkjast á Iceland Airwaves og aðrar hátíðir á hverju ári. Hér skipti opnun Hörpu sköpum og verður aldrei ofmetin.

Einn merkasti tónlistarviðburður ársins var umfangsmikil kynning á íslenskri tónlist í Los Angeles þar sem fleiri tugir íslenskra tónlistarmanna fluttu íslenska tónlist með hið fjölhæfa tónskáld og hljómsveitarstjóra Daníel Bjarnason í fararbroddi. Ný ópera hans, Bræður, var frumsýnd í Danmörku í haust og verður flutt á Listahátíð næsta sumar. Tónskáld eins og Anna Þorvalds og Hugi Guðmunds eru jafnvel þekktari erlendis en hér heima. Víkingur Heiðar vekur aðdáun fyrir píanóleik sinn í tónleikasölum út um allan heim. Íslenskir óperusöngvarar starfa margir að staðaldri í erlendum óperuhúsum. Fremstur, frægastur og reyndastur er Kristinn Sigmundsson en vert er einnig að nefna Ólaf Kjartan Sigurðarson, Bjarna Thor Kristinsson, Tómas Tómasson og Hrólf Sæmundsson. Óperusöngkonurnar eru færri enda samkeppnin þar margfalt harðari, þó má minna á Dísellu Lárusdóttur hjá Metrópólítan-óperunni og Herdísi Önnu Jónasdóttur í Þýskalandi. Og hér heima njótum við frábærra, reynslumikilla óperusöngkvenna: Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur og Hallveigu Rúnarsdóttur svo fáeinar séu nefndar. Af efnilegustu ungu karlsöngvurum í óperuheiminum vil ég nefna Elmar Gilbertsson og Odd Arnþór Jónsson, sem báðir eru rétt að hefja feril sinn, þeir glöddu okkur á fjölmörgum tónleikum á árinu en báðir þreyttu frumraun sína í sýningum hjá Íslensku óperunni, í Ragnheiði og Don Carlo.

Þá var ógleymanlegt í haust að verða vitni að einsöngstónleikum hins unga Jóhanns Kristinssonar í Salnum en hann kom hér fram í fyrsta sinn að loknu námi í Berlín. Tónleikarnir voru sannkallaður viðburður. Og í Toscu á dögunum stökk fullskapaður nýr hljómsveitarstjóri fram á sjónarsviðið, Bjarni Frímann Bjarnason.

Ekki má gleyma drottningunni Björk, sem allur heimurinn þekkir og virðir og heldur áfram að skapa sína einstæðu en síbreytilegu tónlist. Öll þessi tónlistarvelgengni á uppruna sinn í tónlistarskólum landsins, menntun, sem aldrei skyldi vanmetin. Síðast þegar ég vissi voru um 100 tónlistarskólar starfandi á okkar örsmáa landi. Það er því til skammar að ekki skuli betur búið að þeim og Listaháskólanum varðandi bæði fjárhag og húsnæði, sem í tilfelli Listaháskólans er bæði fúið, lekt og heilsuspillandi.

Kvikmyndir og sjónvarp

Íslenskar kvikmyndir njóta vaxandi viðurkenningar erlendis. Flest verðlaun og viðurkenningar á árinu hlaut hin hugljúfa en ljúfsára mynd Guðmundar Arnars Gunnarssonar Hjartasteinn, alls 45 alþjóðaverðlaun. Eins hefur hin vandaða og bráðskemmtilega mynd Hafsteins Gunnars Undir trénu vakið verðskuldaða athygli. Þriðja íslenska myndin sem mætti nefna er Ég man þig eftir Óskar Axel sem var vel unnin draugaleg spennumynd. Velgengni Baltasars á erlendri grund sætir varla tíðindum lengur en hann stjórnaði líka hinni erki-íslensku sjónvarpsþáttaröð Ófærð sem nældi sér á árinu í Evrópsku verðlaunin fyrir bestu sjónvarpsþáttaröðina 2016.

Hér heima vakti íslenska þáttaröðin Fangar sem aðallega var unnin og leikin af konum undir styrkri leikstjórn Ragnars Bragasonar mikla athygli og hrifningu enda sérlega vel heppnuð. Þar var meðal annars tekið á brýnum samfélagsmálum sem varða þöggun og kynbundið ofbeldi en einmitt þessi mál náðu hámarki í heimsbyltingunni #metoo í lok árs. Fangar hafa þegar hlotið tilnefningu til ofannefndra Evrópuverðlauna 2017. Ríkisútvarpið má vera stolt af þessum þáttaröðunum og stefnuyfirlýsingu sinni um aukna framleiðslu á leiknu efni.

Myndlist

Skemmtilegasti myndlistarviðburður ársins var yfirlitssýning Listasafns Reykjavíkur á grallaralegri en jafnframt grafalvarlegri list Ragnars Kjartanssonar. Ragnar er orðinn eftirsóttur myndlistarmaður og sýnir víðsvegar um heim. Ánægjulega frumlegur og uppátækjasamur hendir hann fram óvæntum hugmyndum sem hrista upp í okkur en sækir þó allt í hina einu og sönnu listataug í eigin brjósti. Ég hætti mér ekki út í upptalningar á fleiri myndlistarmönnum enda slíkur fjöldi ungs og hæfileikaríks fólks þar á ferð að sprengikrafturinn er næstum áþreifanlegur.

Að lokum – Mikilvægar menningarpólitískar ákvarðanir.

Hef ekki nægilega yfirsýn í augnablikinu yfir bókmenntirnar og dansheiminn þar eð haustbækurnar eru flestar ólesnar og danssýningar ársins hafa flestar farið fram hjá mér. Sýningarhúsnæðið Mengi er ánægjuleg viðbót í menningarflóruna og hefur boðið upp á ýmsa góða viðburði á árinu.

Tvennt að lokum sem verulegu máli skiptir, tvær ánægjulegar menningarpólitískar ákvarðanir sem tilkynnt hefur verið um. Annars vegar niðurfelling á virðisaukaskatti á bækur sem er löngu tímabær. Eitthvað babb virðist hafa komið í bátinn á síðustu dögum en vonandi dregst ekki úr hömlu að hrinda þessu í framkvæmd. Hitt er hin ánægjulega ákvörðun stjórnvalda að koma íslensku í öll stafræn samskiptatæki og veita til þess 450 milljónum á næsta ári. Við erum í gríðarlegri hættu á að þjóðin tapi niður móðurmáli sínu ef ekki er gripið til róttækra aðgerða. Þessi ákvörðun er ein þeirra og getur skipt sköpum fyrir þjóðarheill.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Róbert Wessman uppljóstrar því hvað hann hefur sett í KR síðustu ár – Ótrúleg upphæð

Róbert Wessman uppljóstrar því hvað hann hefur sett í KR síðustu ár – Ótrúleg upphæð
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu

Ef málið væri ekki svona alvarlegt ættu viðbrögð SVEIT heima í áramótaskaupinu
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fyrrum leikmaður United fer mikinn í viðtali – Segir eðlilegt að Palmer mæti á Old Trafford

Fyrrum leikmaður United fer mikinn í viðtali – Segir eðlilegt að Palmer mæti á Old Trafford
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli

Íslenski morðinginn hlaut 24 ára fangelsisdóm í barnaníðsmáli