fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Afmæli Moggans

Egill Helgason
Sunnudaginn 30. desember 2012 09:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er sagt að efna eigi til hátíðar vegna hundrað ára afmælis Moggans. Það er ágætur tími til að líta yfir farinn veg – kannski gætu þeir líka gert það í Hádegismóum og séð hvað blaðið er mikil hryggðarmynd.

Morgunblaðið var eitt sinn þjóðarblað. Næstu allir Íslendingar sáu það og lásu. Það hafði feikileg áhrif. Ráðherrar í ríkisstjórnum beygðu sig og bukkuðu fyrir blaðinu – líka þeir sem voru ekki í Sjálfstæðisflokknum.

Ef atburður var ekki í Mogganum, ja, þá var eins og hann hefði ekki gerst. Styrmir Gunnarsson lýsir þessu í nýútkominni bók. Viðhorfin til blaðamennsku voru á köflum harla einkennileg.

Morgunblaðið var á þessum árum ein meginstofnun samfélagsins – og það sýndi öðrum stofnunum mikla hollustu. Gagnrýnin umfjöllun fékk sjaldnast inni í blaðinu, en á því voru þó undantekningar þegar líða tók á ritstjóratíð Matthíasar og Styrmis.

Þá tók blaðið rispur, til dæmis á spillingu í kringum Sambandið og Eimskipafélagið – og það tók upp harða krítík á kvótakerfið.

Þetta þótti þáverandi húsbónda í Stjórnarráðinu svo slæmt að hann reyndi að nota einn sendil sinn til að knésetja annan ritstjórann – í gegnum tengsl inn í Landsbankann.

Matthías kom með lífleg menningarskrif, húmanísk viðhorf – og það var hans ær og kýr að vera helst í góðu sambandið við samfélagið eins og það lagði sig. Sá gamalreyndi blaðamaður, Indriði G. Þorsteinsson, orðaði það eitt sinn þannig í samtali við mig að Mogginn skúraði líka göturnar á morgnana. Hann var alls staðar, alltumlykjandi.

Dagblöð af þessu tagi hafa þurft undan að láta. Það eru varla til nein þjóðardagblöð lengur. Mér skilst að Helsingin Sanomaat í Finnlandi komist einna næst því. Það er svolítið eins og Mogginn var einu sinni.

Þegar á leið var hagsmunagæslan aftur harðari á Morgunblaðinu. Björgólfur Guðmundsson eignaðist blaðið og passaði upp á ekki væri skrifað neitt misjafnt um banka og fjármál. Svo varð hrun – blaðið gekk í gegnum óvænt blómaskeið stutta tíð eftir það. Þá var í raun enginn eigandi að blaðinu – blaðamenn dönsuðu frjálsir og birtu alls kyns uppljóstranir. Það var glæsilegur tími. Eignarhald á fjölmiðlum skiptir nefnilega miklu máli. Blaðamennirnir sem héldu uppi fréttaflutningi  á þesum merkilega tíma eru farnir af Mogganum – allir með tölu.

Einhverjum þótti nóg um um. Það var afskrifað af Mogga í bankanum. Fyrrverandi forsætisráðherra og Seðlabankastjóri var gerður að ritstjóra. Hann notar blaðið aðallega til að skrifa réttlætingargreinar um sjálfan sig – eða til þess að láta eins og atburðir hefðu ekki gerst eða séu algjörlega marklitlir. En hagsmunagæslan skiptir mestu máli. Hún er eindregnari og grímulausari en lengi hefur sést í íslenskum fjölmiðli.

En hún hefur auðvitað sinn tilgang. Það er í gangi barátta um völd og verðmæti í íslensku samfélagi. Mogginn er þar í mjög ákveðnu liði. Baráttan teygir sig víða. Til dæmis er gamall bandamaður Morgunblaðsritstjórans, maður sem var bæði í Eimreið og Kolkrabba, Brynjólfur Bjarnason, orðinn framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslanda, en þar er farið með hluti í mörgum helstu stórfyrirtækjum Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?