Á þessari ljósmynd, sem er af Facebókarsíðunni 101Reykjavík, mé sjá hvernig gömul hús í Reykjavík voru illa leikin og niðurnídd á árunum í kringum 1970. Í raun biðu menn þess bara að þau yrðu rifin eða yrðu eldi að bráð.
Áratug síðar var búið að gera þetta fallega hús upp, og síðan hefur það hýst veitingastaðinn vinsæla, Lækjarbrekku. Í baksýn er verslun KRON, Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, þar var um tíma rekin bókabúð sem var mikið sótt – séstaklega vegna þess að Þorvaldur sem þar var verslunarstjóri seldi nokkuð af erlendum bókum. Sjoppans sem er í viðbyggingu gamla hússins er nokkuð eftirminnileg, en rauði bíllinn sem er þarna fyrir neðan er frá þeim tíma að stórum vinningum í happdrættum var stillt út með þessum hætti.
Það er ein helsta breytingin á Reykjavík síðustu áratugina hvað gömlum húsum er vel við haldið. Og það eru þessi hús sem gestir sem hingað koma hafa gaman af að skoða. Það finn ég sjálfur sem bý í húsi þarna í grenndinni sem er byggt 1856. Stundum eru ferðamenn að taka myndir af því, ég held ekki að þeir séu að leita að mér. Ég er ekki viss um hvort það er elsta húsið sem er notað sem íbúðarhús í bænum – en það gæti verið. Sum hús eru eldri, en þau eru yfirleitt notuð undir aðra starfsemi.