Carl Bernstein leggur út af frétt sem er upprunnin frá félaga hans, Bob Woodward, um þá fyrirætlun fjölmiðlamógúlsins Ruperts Murdoch að koma hershöfðingjanum David Petraeus í forsetastól í Bandaríkjunum.
Bernstein og Woodward eru blaðamennirnir sem flettu ofan af Watergate-hneykslinu – sem var í raun upphafið að nútíma rannsóknarblaðamennsku. Nú er Bernstein misboðið vegna þess hversu fréttin um valdabrölt Murdochs hefur vakið litla athygli.
Í fréttinni segir að Murdoch hafi ætlað að nota fé sitt og fjölmiðla til að fá Petraeus kjörinn forseta nú í ár. Hann ætlaði að láta aðalhugmyndafræðing Fox News, Roger Ailes, stjórna báráttunni – ætlunin var að sjónvarpsstöðinni yrði beitt óspart.
Bernstein segir að þetta sýni glöggt hversu viljugur Murdoch er til að misbeita fjölmiðlaveldi sínu sem hefur ótrúleg áhrif bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Aðferðir hans eiga ekkert skylt við blaðamennsku, að sögn Bernsteins.
En Petraeus hikaði. Hann var svo gerður að forstjóra CIA, en sagði af sér í vetur vegna framhjáhaldsmála.
Carl Bernstein telur að Murdoch hafi óeðlileg áhrif með fjölmiðlum sínum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.