Þingmenn geta hlaupið út undan sér í ýmsum málum – og flokksagi er auðvitað misjafn.
Þannig kemur ekki sérlega á óvart að Jón Bjarnason skuli standa að áliti um að slíta aðildarviðræðum við ESB í utanríkismálanefnd. Þetta fellur meira að segja vel í kramið hjá sumum í VG. Hjálpar jafnvel flokknum – hann getur þá sýnt tvö andlit í ESB málum.
En fáum dögum síðar situr hann hjá við afgreiðslu fjárlaga. Fjárlög eru langstærsta mál hverrar ríkisstjórnar – á þeim hanga flest önnur mál. Sá stjórnarþingmaður sem ekki greiðir atkvæði með fjárlögum getur í raun ekki talist vera í stjórnarliðinu lengur. Og það er líka spurning með stjórnarflokkinn – það hlýtur að vera álitamál hvort Jón sé lengur í þingliði VG?
Hann er reyndar að fara í prófkjör í kjördæmi sínu – og etur þar kappi við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem hefur verið dyggur liðsmaður flokksforystunnar. Það verður forvitnilegt að sjá hvern VG-arar í Norðvesturkjördæmi velja.