Athyglisverðasta blaðagrein dagsins er eftir Bjarna Jónsson, stjórnarformann fyrirtækis sem nefnist Nordic Store. Greinin birtist í Fréttablaðinu.
Bjarni skrifar um bandalag verkalýðshreyfingarinnar og stórfyrirtækja, sem hann segir að sé „óskilvirkt, óarðbært og hindrar efnahagslegar framfarir“
Allir stjórnmálaflokkar hafa stutt þetta bandalag, segir hann.
Eðli bandalagsins er að greidd eru laun sem eru langt undir því sem hægt er að lifa á. Ríkið hleypur svo undir bagga til að tryggja þeim sem vinna á strípuðum töxtum lágmarksframfærslu.
„Vinstri menn og verkalýðsfélögin eru býsna ánægð með þetta fyrirkomulag. Ánægðust eru þó, sýnist mér, stórfyrirtæki sem greiða eftir þessum töxtum.“
Bjarni segist reka lítið fyrirtæki og honum detti ekki í hug að greiða taxtalaun. Svo sé málum háttað í mörgum litlum fyrirtækjum. Hann segist telja að ekki sé grundvöllur fyrir rekstri fyrirtækja ef þau geta ekki greitt mannsæmandi laun. Ríkið eigi ekki að greiða stóran hluta framfærslunnar með skattfé:
„Ég rek fyrirtæki þar sem vinna um 20 starfsmenn og mér dettur ekki í hug að bjóða laun samkvæmt taxta kjarasamninga. Sama held ég að gildi um flest lítil fyrirtæki. Stórfyrirtæki eru nánast þau einu sem greiða laun samkvæmt kjarasamningum. Ég lít svo á að ef reksturinn getur ekki greitt laun sem menn geta lifað á, þá er enginn grundvöllur fyrir slíkan rekstur. Menn eiga þá að hætta rekstri. Ríkið á ekki að greiða stóran hluta framfærslunnar með skattpeningum frá vel reknum fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra – sem eru síðan í samkeppni við stórfyrirtækin. Í þessu fyrirkomulagi er mikil sóun á skattfé og vinnuafli. Að auki dregur það úr vilja manna til vinnu þar sem jaðaráhrif skatta eru mjög mikil.
Hugsum okkur að þessu yrði nú breytt þannig að almennir launataxtar yrðu hækkaðir um segjum 50%, þ.e. upp í það sem mörg smærri félög eins og mitt greiðir í dag. Þau fyrirtæki sem ekki gætu greitt þessi laun yrðu að hagræða hjá sér eða færu hreinlega í þrot – sem væri hreinsun fyrir efnahagslífið því önnur arðbærari kæmu í staðinn og veittu sömu þjónustu. Samhliða væru skattar lækkaðir á fyrirtæki og einstaklinga, t.d. tryggingargjald og skattprósenta á laun, og persónuafsláttur nánast afnuminn. Ríkið fengi álíka skatta af launum og fyrirtækjum eftir sem áður vegna hærri skattstofns og hvati til vinnu væri mun meiri þar sem jaðaráhrif skatta yrðu lítil. Allir myndu græða á slíku kerfi nema verkalýðsforystan, félagar þeirra hjá stórfyrirtækjum og stjórnmálamenn sem hefðu ekki eins mikil völd og áhrif.“