Mér finnst afskaplega gaman að horfa á myndir frá arkitektum með tilliti til skuggavarps.
Ég man eftir myndum sem birtust fyrir nokkrum árum af uppbyggingu á Laugavegi 4-6. Samkvæmt skuggunum á þeim var sól hátt á lofti – í hánorðri.
Nú hafa verið birtar myndir af svokölluðum Hljómalindarreit og uppbyggingu þar. Sumir segja að byggingarnar séu svo háar að þar muni lítt sjást til sólar.
En ef tölvumyndir arkitektanna eru skoðar má sjá að svo er ekki – eða hvað?
Það sést ekki betur en að sólin skíni úr austri á húsin við Klapparstíginn, skuggarnir bak við þau eru þó svo stuttir að ætla má að hún sé mjög hátt á lofti á austurhiminum. Gæti hugsanlega gerst á lengsta degi ársins – eða hvað?
Skuggarnir af húsunum við Laugaveginn eru hins vegar aðeins öðruvísi. Þar sýnist manni nefnilega að sólin skíni úr suðri – og að aftur sé hún nokkuð hátt á lofti. Það er ekki óeðlilegt á sumardegi.
Ég ég ætla að taka fram að ég hef ekkert vit á þessu – tel mig ekki vera sérfræðing í skuggum umfram aðra íbúa Reykjavíkur, þessarar borgar þar sem sól er yfirleitt fremur lágt á lofti – og sem þolir ekki mjög háar byggingar vegna þess.