Það er athyglisverð niðurstaða úr skoðanakönnun Viðskiptablaðsins að Árni Páll Árnason njóti meira fylgis en Guðbjartur Hannesson meðal kjósenda Samfylkingarinnar.
Guðbjartur virðist vera vinsælli en Árni Páll innan þingflokksins, hann nýtur stuðnings Jóhönnu, og einnig hafa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Oddný Harðardóttir lýst yfir stuðningi við hann.
En Guðbjartur virkar oft hikandi, hann er gegnir líka einu erfiðasta ráðherraembættinu – um þessar mundir er hann stöðugt í fjölmiðlum vegna vandræðamála. Það getur reynst honum mjög erfitt þegar kemur að kosningabaráttunni. Í stað þess að tefla fram einhverri pólitískri sýn, gæti hann þurft að standa í erfiðri umræðu um heilbrigðiskerfið.
Árni Páll er hins vegar frjáls. Honum var vikið úr ríkisstjórn – kannski var það honum til gæfu þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta gerir honum kleift að tala frjálslega um stjórnmálaástandið og efnahagsmálin, hann þarf ekki að verja gjörðir ríkisstjórnarinnar fremur en honum sýnist.
Staða Árna er því vænlegri en á horfðist – ég held að flestir hafi talið að Guðbjartur yrði ofan á slíkri skoðanakönnun.
Á sama tíma og þessu vindur fram er verið að ganga frá framboðsmálum Bjartrar framtíðar. Jón Gnarr er að melda sig þar um borð, þó ekki endilega í sæti sem er vænlegt til þingmennsku.
En eins og staðan er virðist Björt framtíð líkleg til að taka einkum fylgi frá Samfylkingunni – maður sér hana varla taka mörg atkvæði frá Sjálfstæðisflokknum. Hún getur líka höfðað til kjósenda sem eru algjörlega óráðnir og hugsanlegt er líka að hún gæti höggvið í fylgi Framsóknar á suðvesturhorninu. Innan raða Bjartrar framtíðar starfar jú hópur Framsóknarmanna sem létu sig hverfa vegna Evrópustefnu gamla flokksins.
Árni Páll gæti hugsanlega breytt einhverju um flótta Samfylkingarkjósenda yfir til Bjartrar framtíðar, en Guðbjartur myndi ekki gera það. Það er eftirtektarvert að Guðbjartur nýtur mun meira fylgis meðal kjósenda VG en Árni Páll, en kemur kannski ekki á óvart.