Gamla aðferðin við að breyta stjórnarskránni var sú að skipa nefnd þingmanna sem ráðslagaði um hvað væri hægt að gera við þetta plagg.
Yfirleitt fóru þessar endurskoðanir út um þúfur, vegna þess að stjórnmálaflokkarnir gátu ekki komið sér saman um breytingar. Þannig fór fyrir síðustu stjórnarskrárnefnd sem var skipuð 2005 – í kjölfar synjunar Ólafs Ragnars Grímssonar á fjölmiðlalögunum. Þá var vilji til að breyta stjórnarskráinni, en nefndin gat ekki komið sér saman um þær.
Til halds og trausts var svo sérfræðinganefnd – yfirleitt skipuð lögfræðingum. Þó var einn stjórnmálafræðingur í sérfræðinganefndinni 2005, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. Þar var líka Björg Thorarensen prófessor í lögfræði. Þau tvö hafa harðast gagnrýnt stjórnarskrárferlið sem nú stendur yfir; það er greinilegt að gamla aðferðin var þeim meira að skapi.
Stjórnarskrárferlið sem hófst 2009 er nokkuð margþætt. Það byggði á stórum þjóðfundi, síðan kosningu stjórnlagaráðs, internetið var mikið notað og svo var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögurnar.
Það er ýmislegt sem fór miður í þessu ferli. Hæstiréttur dæmdi stjórnlagaráðskosningarnar ógildar – tillögur stjórnlagaráðsins koma seint til Alþingis sem lögum samkvæmt þarf að fjalla um þær, það er óljóst hvað það fól í sér að kjosendur skyldu greiða atkvæði um tillögurnar í heild sinni – og svo aðeins fimm efnisatriði sem voru tekin út úr.
Á móti má benda á það er engin gullin formúla um hvernig skuli búa til stjórnarskrá. Gamla aðferðin þar sem þingmenn eru að ráðslaga um þetta sín á milli er vond. Það er stór spurning hvort þingmenn eigi yfirleitt að semja stjórnarskrár. Sú aðferð að láta þjóðina um málið hefur vakið mikla athygli út fyrir landsteinana, ég hef þurft að svara spurningum fjölda blaðamanna um ferlið – í þessari viku hef ég til dæmis talað við blaðamenn frá Póllandi og Japan. Margir eru að velta fyrir sér hvort þarna gæti verið einhvers konar fyrirmynd um samningu stjórnarskráa.
Að þessu sögðu verð ég að segja að mér sýnist ferlið vera komið langleiðina út í móa. Ég gef því minna en helmingslíkur að stjórnarskráin fari í gegnum þingið. Andstaðan er hreinlega of mikil – að sumu leyti byggir hún á réttmætri gagnrýni en að sumu leyti sýnist manni að hún snúist meira um hagsmunagæslu og tregðulögmál. Sumir af háskólamönnunum sem tala um stjórnarskrána eru orðnir eins og inngrónir í gamla kerfið – þeir virka nánast eins og varðmenn.
Það er líka svolítið merkilegt að þrátt fyrir allt tal um að hlutir þyrftu að breytast hér eftir hrunið, þá virðast breytingarnar ekki ætla að verða sérstaklega miklar þegar upp er staðið. Annað hvort var gamla sýstemið svona gott – eða þá að hagsmunirnir eru svona sterkir, tregðan og íhaldssemin.