Vernon Bogdanor, prófessor í stjórnsýslufræðum við King´s College í London, skrifar ritdóm í New Statesman um tvær bækur sem fjalla um Margaret Thatcher og Íhaldsflokkinn í Bretlandi. Önnur heitir Making Thatcher´s Britain og hin The Conservatives Since 1945.
Í fyrrnendu bókinni kemur fram að hugmyndir Thatchers, sem hún tefldi fram gegn sósíalismanum hafi ekki síst verið siðferðislegar. Hún hafi séð í sósíalismanum afl sem stjórnaði hugmyndum og sálarlífi fólks – hennar svar var einstaklingshyggja.
En það var þversögn að sjálf var hún íhaldssöm, gamaldags og púrítönsk. Samfélagið sem hún skildi eftir einkenndist hins vegar af trylltri neyslu. Eins og segir í greininni breyttist England úr á tíma hennar samfélagi smákaupmannsins Alfred Roberts – hins vinnusama og siðprúða föður Margaret – yfir í samfélag braskarans Mark Thatcher, sonar hennar.
Greinarhöfundur efast ekki um að thatcherisminn hafi leitt af sér hrun í bresku efnahagslífi. Hugmyndin var sú að ríkið ætti hvergi að koma nærri viðskiptalífinu, allir myndu græða á því. Hinir ríku verða ríkari – og um leið hinir fátæku. Staðreyndin er hins vegar sú, segir í greininni, að tekjur fátækasta fimmtungs þjóðarinar jukust um 6-13 prósent milli 1979 og 1992 á meðan tekjur ríkasta fimmtungsins jukust um meira en 60 prósent.
Verkamannaflokkurinn tók þessa stefnu í arf – hann hélt í raun áfram thatcherismanum á tíma Tonys Blair. Fræg eru orð Peters Mandelson sem sagði að sér væri sama þótt menn yrðu skuggalega ríkir – svo fremi sem þeir borguðu skattana sína. Það er ekki fyrr en nú, í formannstíð Eds Milibands, að farið er að tala um ójöfnuð sem vandamál. En meira að segja tímaritið Economist er farið að skrifa á þeim nótum.
Samt segir í greininni að tími thatcherismans sé í raun frávik í sögu breska Íhaldsins. Flokkurinn hafi aldrei verið mikið fyrir hugsjónir eða hugmyndafræði, heldur hafi hann yfirleitt gert út á að sér væri betur treystandi fyrir stjórn landsins en öðrum – hann væri hæfari til að stjórna. Það sé hin raunverulega sjálfsmynd hans. Í raun er Sjálfstæðisflokkurinn íslenski ekki ólíkur að þessu leyti – en hann átti líka sitt tímabil undir áhrifum thatcerismans. Nú sé flokkurinn aftur kominn á þessar gamalkunnu slóðir, eins og hann var á tíma Harolds Macmillan. Það er flokkur sem lofar ekki of miklu – en það er spurning hvað hann höfðar til kjósenda á tíma þegar flokkurinn á í erfiðleikum með að leiða Bretland út úr efnahagskreppu.