Í Kiljunni annað kvöld förum við austur fyrir fjall og heimsækjum Gyrði Elíasson í litlu húsi þar sem hann hefur skjól til að skrifa. Gyrðir hefur átt merkilegt skáldskaparár, í vor kom út eftir hann ljóðabókin Hér vex enginn sítrónuviður og nú snemma vetrar skáldsagan Suðurglugginn. Bæði þessi verk þykja framúrskarandi góð, Suðurglugginn er tilefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Skáldsagan Endimörk heimsins eftir Sigurjón Magnússon er einnig tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin fjallar um einn frægasta atburð tuttugustu aldarinnar, morðið á Nikulási II Rússakeisara og fjölskyldu hans austur í Úralfjöllum árið 1918. Sigurjón kemur í þáttinn.
Það gerir einnig Sigurður Pálsson en hann hefur sent frá sér ljóðabókina Ljóðorkulind.
Einn gestur til er Vilborg Davíðsdóttir, höfundur skáldsögunnar Vígroði. Þetta er beint framhald af Auði sem kom út fyrir nokkrum árum. Bókin fjallar um Auði djúpúðgu og fleiri norræna menn sem eru búsettir á norðanverðum Bretlandseyjum á árunum fyrir landnám Íslands.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Íslenska kónga eftir Einar Má Guðmundsson, Húsið eftir Stefán Mána og Kulda eftir Yrsu Sigurðardóttur.
Bragi sýnir gamlar gullpennaritgerðir úr MR.
Í Endimörkum heimsins fjallar Sigurjón Magnússon um morðin á rússnesku keisarafjölskyldunni 1918.