Hvað á að gera við stórfyrirtæki sem mikill fjöldi fólks verslar við en notar öll brögð til að komast hjá því að greiða skatta?
Er það í raun ekki búið að segja samfélaginu stríð á hendur?
Ný skýrsla sem hefur verið gerð fyrir breska þingið leiðir í ljós að stórfyrirtæki á borð við Google, Amazon og Starbucks nota flóknar bókhaldsaðferðir til að forðast skattgreiðslur. Helsta leiðin er að vera með reikningsskil í dóttur- og hiðarfyrirtækjum sem eru staðsett víða um heim – þetta er heldur ekki óþekkt á Íslandi.
Auðvitað er þetta alþjóðlegt vandamál sem þarf að taka miklu fastar á.
Skýrslan hefur vakið mikla reiði í Bretlandi, enda eru háar fjáræðir í húfi – svo ekki sé talað um siðferðishlið málsins. Í henni kemur meðal annars fram að munurinn á því sem breska skattstofan hefur ætlað að fyrirtæki eigi að greiða í skatt og þess sem í rauninni skilar sér eru 32 milljarðar punda. Það er næstum helmingurinn af því sem Bretar eyða í skólamál.
Um þetta má lesa í grein eftir Jackie Ashley í Guardian.