Guðbjartur Hannesson – Gutti eins og hann er kallaður – býður sig fram til formennsku í Samfylkingunni. Það er aðeins farið að fenna yfir launahækkunina sem hann veitti forstjóra Landspítalans – og var ekki dregin til baka fyrr en eftir mikil mótmæli.
Guðbjartur er velferðarráðherra, eins og það heitir nú, það þýðir að hann er yfir tveimur ríkisstofnunum sem eru í mestum vandræðum: Landspítalanum og Íbúðalanasjóði.
Samt hefur honum í raun tekist að sleppa ágætlega frá þessu. Hann er rósemdarmaður, virkar afar viðfelldinn og vel meinandi. Hann er skáti.
Hann hlýtur að eiga ágæta möguleika að ná kosningu í formannsembættið – víst er að hann mun njóta stuðnings Jóhönnu Sigurðardóttur ef þeir tveir verða í kjöri, hann og Árni Páll.
Formaður er kjörinn á flokksþingi Samfylkingarinnar, þar gæti Guðbjartur átt sitt vísa fylgi – ef hins vegar er farið út meðal almennra kjósenda er eins líklegt að Árni Páll hafi yfirhöndina.
Eða hvað?