Bjarni Harðarson vinur minn er með allra skemmtilegustu mönnum.
Við unnum fyrst saman á Tímanum endur fyrir löngu, síðar á Helgarpóstinu, og varð strax vel til vina.
Það leyndi sér ekki að maðurinn var fjörugur og frumlegur. Margir virðast telja að Bjarni hjóti að vera alinn upp í koti í afdal, en staðreyndin er sú að hann uppfóstraðist í gróðrarstöð innan um gúrkur, tómata og blóm.
En hann er auðvitað feikn sérvitur. Bjarni hefur gefið sig mjög að þjóðlegum fróðleik, draugum og hjátrú – síðasta bók hans, Mensalder, ber hugðarefnum hans vitni, hún fjallar um fólk á tuttugustu öld sem bjó á því Íslandi sem lengst var til, í torfbæ, við forna búskaparhætti. En Bjarni er reyndar líka áhugamaður um motorcross-hjól.
Bjarni hefur reynt fyrir sér í pólitík. Hann rekst illa í flokki, vægast sagt. Strax eftir að hann var kosinn á þing fyrir Framsókn 2007 gerði hann mikinn óskunda, að því flokksforystan taldi, með því að tala alltof frjálslega um stjórnarmyndun. Hann hvarf af þingi við illan leik, gekk í VG – og er nú farinn úr þeim flokki.
Það kemur ekki á óvart. Að sumu leyti er Bjarni ólíkindatól. Þegar við hittumst á Suðurlandi í haust talaði hann vel um Samfylkinguna. Ég er ekki viss um að hún myndi vilja fá hann í sínar raðir.
En Bjarni, eins og margir góðir menn, á hvergi heima í pólitík. Hann er á móti Evrópusambandinu, en um leið en hann á enga samleið með fólki sem hatast við útlendinga og innflytjendur. Hann fyrirlítur slíkt. Hann hefur krítíska og eldfjöruga hugsun sem rúmast ekki í þrengslunum inni í stjórnmálaflokkum.