Styrmir Gunnarsson gerir að umtalsefni áhrifaleysi Svía innan ESB, í tilefni af fyrirlestri Görans Person nú í vikunni. Það er ekki víst að Svíar myndu sjálfir skrifa undir kenningar Styrmis. Þeir eru ein þeirra þjóða sem best hafa komið út úr kreppunni.
Styrmir leggur reyndar lykkju á leið sína og fer að rifja upp hlutverk Svía í stríðinu:
„Þetta var út af fyrir sig afrek hjá Svíum í ljósi framferðis þeirra í heimsstyrjöldinni síðari og merkilegt hvað lítið er um það fjallað. Það voru ekki margir, sem græddu á Hitler á stríðsárunum. En afkomendur þeirra Norðmanna, sem voru reknir til baka á landamærum Svíþjóðar á flótta undan Gestapó hafa engu gleymt. Það virðist vera eins konar tabú í heimi sagnfræðinnar. Hvað ætli valdi?“
Þetta er reyndar eitt af þeim málum sem má skoða frá allt annari hlið – saga Svíþjóðar á tuttugustu öld er mjög forvitnileg. Svíum tókst að kveða niður helstefnurnar tvær, nasisma og kommúnisma, og byggja upp það sem kallaðist þjóðarheimilið – folkehemmet – á sama tíma og alræðisöflin náðu hvarvetna völdum í Evrópu. Það var ekki lítið afrek hjá þjóð sem hafði búið við mjög afturhaldssaman og þýskalandssinnaðan aðal og mikil stéttaátök.
En aftur að áhrifaleysi Svía. Þeir hafa löngum átt stjórnmálamenn sem hafa látið til sín taka á alþjóðavettvangi – Carl Bildt er frægastur þeirra sem nú er uppi, hann er utanríkisráðherra Svíþjóðar. Nýja stjarnan er þó fjármálaráðherrann. Hann er efstur á lista í úttekt Financial Times á bestu fjármálaráðherrum í Evrópu og fær toppeinkunn fyrir pólitík, hagfræði og trúverðugleika.