Kiljan á miðvikudagskvöld ber merki þess að jólabókaflóðið er í hámarki. Við fjöllum um nokkurn fjölda nýrra bóka.
ð ævisaga er bók eftir hönnuðina Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Inga Farestveit og sagnfræðinginn Stefán Pálsson. Hún segir frá þessum gamla bókstaf sem var aftur tekinn upp í nútíma íslensku fyrir tilstilli málfræðingsins Rasmus Christians Rask. Bókstafurinn hefur lengi valdið leturgerðarmönnum og grafískum hönnuðum miklum heilabrotum, enda fyrirfinnst hann ekki í öðru ritmáli.
Einar Már Guðmundsson kemur í þáttinn og segir frá skáldsögu sinni sem nefnist Íslenskir kóngar. Í bókinni skapar Einar heilt pláss sem hann nefnir Tangavík. Þar ræður lögum og lofum Knudsen-ættin. Þetta er stór og breið saga, í aðra röndina er hún eins og spéspegill íslensks samfélags og sögu.
Kristín Steinsdóttir verður líka gestur í þættinum. Hún er höfundur bókarinnar Bjarna-Dísu. Þar byggir Kristín á gamalli þjóðsögu austan af landi um systkini sem lentu í miklum hrakningum á Fjarðarheiði. Dísa er sögð hafa gengið aftur – Kristín skoðar örlög hennar og veitir henni að sumu leyti uppreisn æru.
Við förum á Skólavörðustíg og hittum Úlfar Þormóðsson sem skrifar bókina Boxarann – þar segir hann frá föður sínum og ættmennum.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær skáldsögur: Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur og Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur.
En Bragi segir meðal annars frá mönnum sem eru með bókaaæði.