Timothy Garton-Ash, höfundur fjölda bóka um alþjóðamál og þá sérstaklega Evrópu, skrifar grein í Guardian þar sem hann líkir Bretlandi við skrifstofumann sem stendur á syllu háhýsis og getur ekki ákveðið hvort hann á að stökkva – sumir hrópa á hann að bíða, aðrir kalla: Stökktu, stökktu!
Ash er að skrifa um ástandið í Evrópusambandinu, en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, er undir miklum þrýstingi um að ganga úr ESB. Íhaldsflokkur hans stendur illa í skoðanakönnunum og nokkurt fylgi leitar til UKIP, sjálfstæðisflokks Bretlands.
Garton-Ash segir að í Evrópu sé skortur á skapandi hugsun. Á meginlandinu snúist öll umræðan um dýpri samruna í efnahagsmálum, en þar verði Bretland ekki með í fyrirsjáanlegri framtíð, en í Bretlandi séu allir skíthræddir við evróskeptíkera og götublöð sem haldi uppi linnulausum áróðri gegn ESB, oft á mjög hæpnum forsendum og af litlu tilefni.
Greinarhöfundurinn segir að Evrópa þurfi að hafa fleiri en einn kjarna, hún geti ekki bara hverfst um evruna og Þýskaland, heldur þurfi líka að reka utanríkis- og öryggisstefnu og þar sé Þýskaland ófært um að leiða. Þar gæti Bretland haft mikið hlutverk, segir Ash.