Nú er talað um að meirihluti Breta sé fyrir því að ganga úr Evrópusambandinu. Hugsanlegt er að þetta valdi létti hjá sumum á meginlandinu – þeir eru enn til sem telja að það hafi verið mistök að hleypa Bretlandi inn á sínum tíma. Bretar hafa verið á móti ýmsum málum sem talið er nauðsynlegt að koma í gegn, eins og hertu bankaeftirliti og aðgerðum gegn skattaparadísum. Frægt er að De Gaulle stóð alltaf gegn því, það var eftirmaður hans, Georges Pompidou, sem opnaði dyrnar fyrir Bretum. Þá var Íhaldsflokkurinn við völd á Bretlandi.
En þetta er ekki alveg einfalt. Norðurhluti Bretlands heitir Skotland. Það eru í raun Englendingar sem eru mest á móti Evrópusambandinu. Andstaðan gegn því er minni í Skotlandi. Skotar sækja nú fram í átt til sjálfstæðis. Það er hugsanlegt að Skotum myndi ekki hugnast útganga Englendinga úr Evrópusambandinu – og að það yrði beinlínis vatn á myllu sjálfstæðissinna.
Í sjálfstæðisbaráttu sinni hafa Skotar verið að horfa meira til Evrópu en áður. Norðurlöndin eru ákveðin fyrirmynd – Skotland er náttúrlega afskaplega nálægt Skandinavíu. Skotar hallast líka nokkuð meira til vinstri en Englendingar – Íhaldsflokkurinn er varla til sem stjórnmálaafl í Skotlandi.
Ekki verður heldur horft framhjá því að Bretland er að mörgu leyti sá staður í Vestur-Evrópu sem er í verstu ásigkomulagi. Ójöfnuður er þar meiri en annars staðar í álfunni, glæpatíðni er hærri og fleira fólk situr í fangelsum – þrátt fyrir að Bretland sé ekki í Schengen – hvergi hefur fjármálavaldið meiri áhrif og óvíða er lífskjörum jafn misskipt milli landsvæða. Skuldir eru mjög háar og niðursveiflan í hagkerfinu hefur reynst mjög langvinn.