Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík bætist í flokk hinna veiku prófkjara sem hafa verið haldin undanfarið – og er kannski einna veikast. Kjörsókn var aðeins 38 prósent, og máttu þó aðeins skráðir flokksfélagar kjósa. Deilur komu upp um framkvæmd prófkjörsins. Og af þeim 2500 atkvæðum sem voru greidd, fékk efsti maður, Össur Skarphéðinsson, aðeins 972 atkvæði eða 38 prósent.
Eftir þetta er harla ólíklegt að Össur fari að sækjast eftir því að verða formaður flokksins eins og rætt hefur verið um. Það er þó rétt að taka fram að hann hefur vísað öllu slíku frá sér. Gatan virðist greið fyrir Árna Pál Árnason.
Össur stenst atlögu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem reyndi að velta honum úr fyrsta sætinu, en það er ekki nema rétt svo. Á þeim munar 68 atkvæðum. Sigríður Ingibjörg fer varla í formannsslag heldur eftir þessa kosningu, en leiðir lista flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Það er nokkur léttir fyrir Samfylkinguna að samkvæmt úrslitum prófkjaranna verða konur í efstu sætum í tveimur prófkjörum – Oddný Harðardóttir sigraði Björgvin G. Sigurðsson i Suðurkjördæmi, í raun kom það ekki á óvart.
Endurnýjunin er sama og engin hjá Samfylkingunni í þessum prófkjörum. Þingmenn raða sér í efstu sætin, þeir sem vilja koma nýjir inn hafa ekki erindi sem erfiði. Björk Vilhelmsdóttir nær reyndar nokkuð álitlegu sæti, hún verður númer þrjú í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Björk er hins vegar búin að vera lengi í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna án þess að ná að verða þekkt út fyrir raðir flokksmanna.
Það vekur svo athygli að einarðasti talsmaður umhverfisverndar í flokknum, Mörður Árnason, er í sjöunda sæti. Það er allsendis óvíst að hann nái inn á þing. Þetta styrkir þá skoðun að umhverfisvernd hafi verið hafnað í prófkjörum Samfylkingarinnar – altént virðist vera fremur lítill áhugi á þeim málum innan flokksins. Á það hefur verið bent að stjóriðjusinnar komu sterkt út úr prófkjörunum sem voru haldin um síðustu helgi.