Í síðasta pistli skrifaði ég um spillinguna á Íslandi – nefndi þar hermangið og ríkisbankana, þar voru bankastjórarnir agentar stjórnmálaflokkanna, og sáu um að útdeila fé til þeirra sem voru í klíkunum eða innundir hjá þeim.
Alþýða manna varð að fara á hnjánum til að fá lán í banka.
Það eru ýmsar hliðar á þessu.
Ég minntist til dæmis ekki stétt okurlánara sem var miklu fjölmennari á þessum árum en menn gera sér grein fyrir. Okurlánararnir störfuðu víða, að sumu leyti voru þeir að uppfylla þörf. Hjá þeim gátu einstaklingar og smáfyrirtæki fengið aur til að fleyta áfram rekstrinum.
Þetta er önnur saga sem ekki hefur verið sögð. Þessi starfsemi var eiginlega í þagnargildi. Ég hef heyrt ýmsar frásagnir og nöfn, einn okurlánari bjó til dæmis í íbúð nálægt miðbænum sem ég átti seinna heima í.
Vextirnir voru kannski ekki heldur svo háir – að minnsta kosti ekki miðað við sumar stofnanir sem starfa í dag, með samþykki ríkisvaldsins.