Þessi ljósmynd kemur manni í gott skap. Karlinn á myndinni hét Fred Cole, var frá Pensacola í Bandaríkjunum, hann var ferðamaður í London og var fyrir tilviljun staddur á Abbey Road 8. ágúst 1969, klukkan 10 að morgni. Cole var skrafhreifinn maður, hann hafði verið að spjalla við lögreglumann sem þarna sat í bíl. Þá var smellt af einni frægustu ljósmynd seinni tíma. Cole hafði ekki hugmynd um hvaða menn þetta voru, en fannst þeir skrítnir að sjá – róttæklingalegir.
Fred Cole dó 2008, 96 ára að aldri. Hann sá umslagið af Abbey Road plötunni ári eftir að hún kom út og bar kennsl á sjálfan sig.