Ég tók að mér að stjórna fundi um verðtryggingu hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í gær. Fundurinn var í Háskólabíói, það var húsfyllir og þungir straumar í loftinu.
Þetta er ekki auðveldasta verkefni sem ég hef tekið að mér, en það var skemmtilegt. Stórir borgarafundir eins og þessi, þar sem eru rædd brýn mál, eru yfirleitt mjög ánægjulegir.
Ég hef velt því fyrir mér að hve miklu leyti skuldamálin eigi eftir að verða í aðalhlutverki í kosningunum í vor. Það er víst að fæstir af gömlu flokkunum eiga eftir að setja þau á oddinn – nema þá Framsókn. Af nýju framboðunum munu Samstaða, Dögun og Hægri grænir reyna grimmt að koma þeim í umræðuna.
Þetta er ekki einfalt. Nú eru bankar farnir að bjóða óverðtryggð lán – og það er komin heimild fyrir Íbúðalánasjóð að gera slíkt hið sama þótt hún sé ekki enn komin í gildi. Lántakendur hjóta þó að hika, er þorandi að taka óverðtryggð lán sem geta hækkað upp úr öllu valdi ef kemur ný verðbólguhrina? Mánaðarlegar greiðslur af slíkum lánum geta orðið ægilegar.
Ég spurði Pétur Blöndal, einn frummælenda á fundinum, hvort hann gæti mælt með því að taka óverðtryggt lán. Pétur er ærlegur maður og svar hans var dæmigert fyrir óvissuna sem ríkir í þessum málum:
Ég mundi taka helminginn óverðtryggðan og helminginn verðtryggðan, sagði Pétur, og bætti svo við – annars veit ég það ekki.
Eins og horfði við fundinum í gær er málið reyndar tvíþætt. Annars vegar að vinda ofan af verðtryggingunni og hins vegar hvort og hvernig rétta eigi hlut þeirra sem urðu verst úti með húsnæðislán sín í hruninu.
Það virðist vera nokkur pólitískur vilji til að minnka áhrif verðtryggingarinnar í kerfinu, en svörin eru loðnari gagnvart því síðarnefnda, að vinna bug á fortíðarvandanum. Við stöndum frammi fyrir sama vandamáli og á verðbólgutímanum upp úr 1980, það eru stórir hópar sem þurfa að eyða mörgum árum í endalaust húsnæðisbasl.
Aðalmálið til framtíðar hlýtur þó að vera að byggja upp manneskjulegt banka- og lánakerfi sem gerir fólki kleift að gera raunhæfar áætlanir um líf sitt og hvernig það getur komið sér þaki yfir höfuðið – kerfi sem virkar ekki eins og það sé fjandsamlegt fólkinu í landinu. Vaxtaokrið á Íslandi er hrikalegt. Það aukinheldur rétt sem kom fram á fundinum í gær að það eru ekki einungis skuldarar sem eru í vanda, mikill fjöldi fólks tapaði líka sparnaði sínum í hruninu. Við verðum lengi að bíta úr nálinni með þá langvinnu efnahagsóstjórn sem hefur einkennt þessa þjóð.