Gestur Jónsson lögmaður varð landsfrægur þegar hann barðist með kjafti og klóm fyrir Jón Ásgeir í Baugsmálinu.
Nú er hann kominn með annan skjólstæðing, ekki síður umdeildan, Sigurð Einarsson.
Og Gestur liggur ekki á liði sínu.
Hann segir að ákæran á hendur Sigurði sé „andstyggileg“ vegna þess að hún komi í veg fyrir að hann geti starfað á fjármálamarkaði.
En ætli sé mikil eftirspurn eftir starfskröftum Sigurðar þar?
Eftir hina hrikalegu markaðsmisnotkun sem var stunduð innan Kaupþings, skollaleikinn með hlutabréfamarkaðinn, árásirnar á íslensku krónuna, svikamyllurnar, innanhússlánin, ólöglegu gjaldeyrislánin?
Jæja – kannski þykja þetta allt meðmæli á fjármálamarkaðnum eins og í pottinn er búið.
En Andrés Jónsson almannatengill hefur nokkuð fyrir sér þegar hann skrifar um viðurkennd ósannindi:
„Eru „viðurkennd ósannindi“ kannski bara eðlilegur hluti af opinberri umræðu?
Nýjasta dæmið sem ég velti fyrir mér hvort flokka eigi með viðurkenndum ósannindum, eru fullyrðingar verjenda og sakborninga í hvítflibbamálum, bæði í greinargerðum til dómstóla og til fjölmiðla.
Trúir einhver því t.d. að Sigurður Einarsson hafi ekki verið viðriðinn ákvörðun um að lána allt kaupverð 5% hlutar í Kaupþingi sem seldur var olíufurstanum Al-Thani rétt fyrir hrun?
Er ekki staðreynd að Sigurður byggði upp og stýrði Kaupþingi sjálfur frá A-Ö í tæpan áratug þrátt fyrir að eiga aðeins lítinn hlut í bankanum. M.a. með því að láta valda menn kaupa í bankanum og lána þeim í staðinn í önnur verkefni (T.d. Exista). Það virðist blasa við að hann hafi farið með öll völd í Kaupþingi.
En hann segist nú „ekki haft heimild til slíkra ákvarðana“.
Er kannski allt leyfilegt til að ná fram sýknu?
Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig. En það væri gott að vita hvernig þetta er. Hvernig lögmenn líta á þessar yfirlýsingar.
—
Það má líka spyrja hvort það sé hollt fyrir samfélagið að mistrúverðugar yfirlýsingar, sem fram koma í greinargerðum sakborninga, verði sjálfkrafa að fyrirsögnum fjölmiðla?
Oft er enginn fyrirvari gerður í fréttunum um að fullyrðingarnar séu í mótsögn við það sem áður hefur komið fram.
Í mesta lagi kemur önnur frétt þar sem vitnað er í saksóknara. En hann verður að gæta orða sinna mun betur samkvæmt hefðinni virðist vera.
Dropinn holar steininn og við verðum að standa vörð um stofnanir sem halda uppi lögum í landinu. Nógu veikburða eru þær nú samt.
Nógu margar fyrirsagnir um annarlegan tilgang og vanhæfni geta haft áhrif.
Baugsmálið er ágætis dæmi, jafnvel þó að fleiri hliðar hafi verið á því máli.
—
Önnur hlið er svo trúverðugleiki hinna ákærðu.
Er ekki óheppilegt fyrir nafntogaða menn að halda blákalt fram hlutum sem allt viti borið fólk veit að eru rangir?
Ekki síst á sama tíma og þeir eru að reyna að sannfæra dómstóla um eigin heiðarleika og löghlýðni?
Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá sjálfa, dómstóla og ekki síður okkur hin.“