Undanfarna daga hef ég dvalið í Helsinki. Ég hef komist að því að Finnar eru ekki þungir og fúlir, heldur er flest fólk sem ég hitti hérna ræðið, gáfað og skemmtilegt. Viðmót þjóna og afgreiðslufólks er líka sérlega gott.
Þetta er í annað skipti sem ég kem til Helsinki. Þetta er ekki borg sem heillar mann strax, sjarmi hennar er dálítið á huldu, en smátt og smátt lærir maður að meta hana.
Ég hef verið á fundum hérna með finnskum rithöfundum, hér hefur líka verið fólk frá hinum Norðurlöndunum, og ég hallast að því að við Íslendingar eigum góða samleið með Finnunum. Kannski einfaldlega af því þetta eru bæði fámennar þjóðir sem tala útkjálkamál sem enginn annar skilur.
Ég hef verið að skoða finnskar bækur – flestar þá í sænskum þýðingum, en aðrar eru skrifaðar á sænsku – og það leynir sér ekki að hér býr mikil menningarþjóð. Umfjöllunarefnin eru oft mjög heillandi, helgast gjarnan af staðsetningu Finnlands í veröldinni, og finnsku höfundarnir tjá mér að mál þeirra sé mjög lifandi sem ritmál.
Ég fer með bunka af bókum heim héðan. En þegar ég var laus úr bókmenntunum í dag fór ég í þjóðarmyndlistarsafnið sem nefnist Ateneum. Þar er að finna verk eftir hina stórkostlegu finnsku málara sem voru uppi á síðari hluta 19. aldar og í upphafi þeirra tuttugustu. Málararnir voru margir virkir í uppgangi finnskrar þjóðernisstefnu – og þeir fundu einhvern blæ sem er alveg einstakur.
Margar myndirnar í safninu eru þannig að maður staldrar lengi við og horfir hugfanginn.
Ein frægasta myndin í Ateneum safninu í Helsinki, Særður engill eftir Hugo Simberg. Myndin vekur ófáar spurningar.