Ég leyfi mér stundum að taka myndir af Fésbókarsíðunni 101Reykjavík.
Hér er ein, hún sýnir gömlu Gasstöðina við Hlemm – þá sömu og Megas söng um í einu af sínum snjöllustu lögum.
Gasstöðin starfaði frá 1910 til 1956 – stuttu eftir það var hún rifin og um 1970 reis þarna Lögreglustöðin.
Gasstöðin virðist hafa verið nokkuð falleg bygging, hið sama verður ekki sagt um Lögreglustöðina.
Hlemmur er hálfgert vandræðasvæði í skipulagi Reykjavíkur. Þangað ganga strætisvagnar, en brátt stendur til að breyta því og setja aðalskiptistöðina út á BSÍ. Torgið og svæðið þar í kring er sérstaklega óaðlaðandi – það er næstum hægt að tala um slömm í því sambandi.
Þeirri hugmynd hefur verið kastað fram að setja niður bændamarkað á Hlemmi – það yrði þá að vera bændamarkaður í víðum skilningi þar sem gætu þrifist alls kyns litlar búðir sem selja gæðamatvæli.
Á miðjum Hlemminum stendur hin hræðilega ljóta skiptistöð strætisvagagnanna, hús sem er eins og hannað fyrir félagsleg vandamál, dimmt og drungalegt.
Myndi hugmyndin vera að setja markaðinn niður í því – eða er kannski einfaldast að rífa húsið og setja upp léttara og bjartara mannvirki?
En ef þessi hugmynd yrði að veruleika er eins víst að svæðið myndi njóta þess – við austurhlið Hlemmsins stendur feikilega stórt hús, þar er til dæmis vannýtt rými sem áður var útibú Búnaðarbankans.