Eitt sinn voru það nánast viðtekin sannindi að markaðshagkerfi og lýðræði færu saman. Þetta var hugmyndin bak við hina nýju skipan heimsins sem var altöluð á árunum eftir að Múrinn féll.
En svo hefur komið í ljós að þetta er alls ekki raunin.
Kína er að verða mesta viðskiptaveldi heims, ríkinu er stjórnað af klíku fullorðinna karlmanna – stjórn landsins fer fram bak við luktar dyr, en stundum verða lekar, eins og þegar New York Times birtir fréttir um gríðarlega spillingu í kringum forsætisráðherrann, Wen Jiabao. Kínverjar bregðast æfir við, saka vestræna fjölmiðla um ófrægingarherferð og loka fyrir netmiðla. Fáir efast þó um sannleiksgildi þessara frásagna.
Þetta er í raun sú þjóðfélagsgerð sem er hvað mest vaxandi í heiminum, blanda af einræði eða fáræði og kapítalisma. Það kennir okkur kannski að taka ekki okkar vestræna lýðræði sem gefnum hlut. Það er ekkert lögmál að það endist að eilífu.
The Economist birti fyrir stuttu þetta línurit sem sýnir lönd þar sem aðstæður til að stunda viðskipti hafa batnað mest síðustu árin. Neðra línuritið sýnir hversu auðvelt er að stunda viðskipti í löndum, borið saman við spillingarmælikvarða Transparency International.
Eins og bent er á í blaðinu horfir fjöldi ríkja ekki til Evrópu eða Ameríku um fyrirmyndir, heldur á aðra staði þar sem er uppgangur í viðskiptum, en ekki endilega lýðræði eða tjáningarfrelsi.