Ég mun eins og milljónir annarra jarðarbúa fara og sjá nýju Bondmyndina í bíó.
Og ég mun skemmta mér svona ágætlega – svona fram að lokaatriðunum, þá svífur yfirleitt á mig höfgi. Ég veit fátt sem nær að svæfa mig betur en lokaatriði Bondmynda. Þau eru alltaf eins; það er eins og að telja kindur.
Ég mun líka fara þótt mér þyki sá frábæri leikari Daniel Craig vera einn allralélegasti Bondinn. Ég er vanari Bond sem er gamansamur og hnyttinn, með blik í auga – Craig er mæddur og þunglyndislegur.
Ég mun líka fara þótt kvikmyndin sé nánast ein samfelld auglýsing fyrir alls kyns varning. Bond drekkur Heineken bjór í myndinni – fyrirtækið borgar 28 milljónir punda fyrir það. Þetta kallast á ensku product placement en á fegruðu máli auglýsingaiðnaðarins er farið að tala um brand integration. Semsagt að einhver vara sé beinlínis partur af verkinu, en ekki bara dót sem er verið að pranga upp á fólk.
Er Bondlegt að drekka Heineken? Nei, varla. En það er spursmál um milljónir og aftur milljónir.