Það birtast fréttir um mikil skattaundanskot í ferðaþjónustunni. Eins kemur í ljós að margt fólk sem starfar þar er líka á atvinnuleysisbótum.
Þetta kemur ekki á óvart.
Gripið hefur um sig gullgrafaraæði í ferðabransanum. Allir sem vettlingi geta valdið ætla að græða á ferðamönnum. Fólk er í stórum stíl farið að leigja íbúðir sínar til ferðamanna, það spretta upp gistiheimili – sum þeirra uppfylla ekki lágmarkskröfur um öryggi – það er farið að gera út langferðabíla sem eru ekki hæfir til að flytja fjölda fólks.
Og svo má lengi telja. Maður er sífellt að heyra sögur í þessa veru.
Að sumu leyti minnir þetta á æði sem hafa áður runnið á landann: Tímann þegar allir ætluðu að verða ríkir á Íslenskri erfðagreiningu og banka- og húsnæðisbrjálæðið á árunum fyrir hrun.
Ísland er í tísku sem áfangastaður. Hér eru teknar upp stórar Hollywoodmyndir og ferðaþætti frá Íslandi má sjá í sjónvarpsstöðvum út um allan heim. Ólafur Ragnar Grímsson forseti ræddi um það fyrir nokkru að ferðamenn hér yrðu tvær milljónir á ári innan tíðar.
Líklega ráðum við ekki við það án þess að allt fari í vitleysu.
Skattaundanskotin vita ekki á gott. En ráðið við þeim er örugglega ekki að hækka virðisaukaskatt á hótelgistingu upp í 25 prósent. Hann er nú 7 prósent – sem er heldur lágt. Reyndar er furða að menn skuli hafa fyrir því að svíkja undan skatti þegar prósentutalan er svo lág. Það lýsir lélegu siðferði – og bendir til þess að þurfi að taka ferðamannamálin mun fastari tökum.