Það að svífast einskis til að ná markmiðum sínum er eitt einkenni siðblindu. Það virðist vera ljóst að hljólreiðamaðurinn Lance Armstrong er hreinræktaður sýkópati.
Sýkópatar komast oft upp með athæfi sitt og jafnvel í langan tíma, ein ástæða þess er að venjulegt fólk á erfitt með að setja sig inn í hugarheim þeirra.
Armstrong beitti öllum ráðum til að sigra í hjólreiðakeppninni Tour de France. Og honum tókst að vinna sjö sinnum – hvorki meira né minna. Þetta gerði hann með því að beita óhemju flóknu og yfirgripsmiklu svindli, þar sem fjöldi manns aðstoðaði hann.
Armstrong er nú fyririrlitinn af öllum. Það er búið að svipta hann Tour de France titlunum. Það stendur til að krefja hann um endurgreiðslu verðlaunafjár. Sú ágæta íþrótt hjólreiðar er náttúrlega í sárum – og þetta varpar efasemdum á önnur íþróttaafrek.
Svo er það líka sorglegt hvert siðblinda leiðir mann. Kannski hefði Armstrong getað sigrað í hjólreiðakeppninni miklu án þess að hafa rangt við – kannski ekki sjö sinnum, en einu sinni, tvisvar, kannski þrisvar?
Í staðinn er orðstír hans í ræsinu og verður ekki endurreistur.