Þegar atkvæði verða talin úr kosningunum í kvöld verður ekki bara spurt um já eða nei – heldur líka um kjörsóknina. Verður hún mikil, lítil, sæmileg? Það er varla hægt að búast við kjörsókn eins og til dæmis í Alþingiskosningum, og varla sveitarstjórna og forsetakosningum heldur.
En hvað telst vera viðunnandi kjörsókn – í síðustu forsetakosningum var hún 69,2 prósent og þótti heldur lítið. Eins þótti kjörsóknin léleg í sveitarstjórnakosningum 2010, þá var hún 73 prósent. Kjörsóknin í alþingiskosningunum 2009 var 85 prósent.
Hefð er fyrir því að kjörsókn á Íslandi sé góð. Almennt virðist þó tilhneiging til minnkandi kjörsóknar.
Í kosningunum til Stjórnlagaþings 2010 var kjörsóknin 37 prósent. Það þótti heldur klént.
Þessa yfirlitsmynd yfir kjörsókn síðustu ára fann ég á Facebook síðu, ég vona að mér verði fyrirgefið að hafa tekið hana traustataki. Við sjáum þarna líka til samanburðar þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave þar sem kosningaþáttaka verður að teljast góð, sérstaklega í þeirri síðari – sem þó skipti líklega minna máli fyrir þjóðarhag en sú fyrri.